Björgvin Guðmundsson formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.

bjorgvin1

Björgvin Guðmundsson formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni,
skrifar þennan pistil í Fréttablaðinu 28 ágúst 2015.

 

Ég skora á Alþingi að hækka strax lífeyri aldraðra og öryrkja jafn mikið og lágmarkslaun hækkuðu 1. maí sl. eða um 31 þúsund krónur á mánuði. Hækkunin gildi frá 1. maí þannig að lífeyrisþegar fái 5 mánaða hækkun með septemberhækkun, þegar hækkunin taki gildi eða 155 þúsund krónur. Alþingi samþykki þessa hækkun strax og það kemur saman 8. september. Allir flokkar á Alþingi taki höndum saman um þessa sjálfsögðu leiðréttingu á kjörum aldraðra og öryrkja. Náist þverpólitísk samstaða um þessa leið- réttingu á kjörum aldraðra og öryrkja er unnt að afgreiða frumvarp um hana á einum degi. Þjóðin öll mundi standa með Alþingi í þessu máli og álit Alþingis mundi stóraukast. Algert lágmark fyrir lífeyrisþega Einhleypir ellilífeyrisþegar, sem einungis hafa tekjur frá almannatryggingum, hafa í dag 225 þúsund krónur á mánuði frá TR fyrir skatt og 192 þúsund krónur á mánuði eftir skatt. Við leiðréttingu Alþingis mundi þessi upphæð hækka í 256 þúsund krónur á mánuði fyrir skatt og 211 þúsund eftir skatt. Það eru öll ósköpin. Skatturinn Alþingi Íslendinga hækki lífeyri aldraðra strax jafn mikið og lágmarkslaun Björgvin Guðmundsson formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni Það er engin spurning, að þeir aldraðir og öryrkjar, sem einungis hafa tekjur frá TR eiga rétt á aðstoð samkvæmt stjórnarskránni. Þeir hefðu hins vegar átt að fá hana miklu fyrr. Kjaramál tekur sitt og ellilífeyrisþeginn heldur aðeins hluta af hækkuninni. Í rauninni erum við hér að tala um algert lágmark til þess að lifa af fyrir einstakling. Ef húsnæðiskostnaður er hár dugar þetta ekki. Það þarf til viðbótar að koma aðstoð frá sveitarfélagi. Lífeyrir TR til lífeyrisþega á að vera skattfrjáls. Alþingi þyrfti einnig að samþykkja, að næstu 3 árin fengju aldraðir og öryrkjar sömu hækkun og láglaunafólk, þ.e. hækkun upp í 300 þúsund krónur á mánuði eins og láglaunafólk á að fá. Eiga rétt á þessu samkvæmt stjórnarskránni Við erum hér að tala um einhleypa lífeyrisþega en síðan ættu aðrir aldraðir og öryrkjar að hækka tilsvarandi samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins. Stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn, hafa skert kjör aldraðra og öryrkja á miðju ári. Á sama hátt getur Alþingi hvenær sem er ársins hækkað lífeyri aldraðra og öryrkja. Það skiptir engu máli þó ekki sé lokið afgreiðslu nýrra fjárlaga. Stjórnarskráin er æðri fjárlögum og öllum öðrum lögum. Og samkvæmt 76. grein stjórnarskrárinnar á ríkið að aðstoða þá, sem þurfa aðstoð vegna elli og örorku. Sannanlega þurfa þeir aldraðir og öryrkjar, sem verst eru staddir aðstoð. Það er engin spurning, að þeir aldraðir og öryrkjar, sem einungis hafa tekjur frá TR, eiga rétt á aðstoð samkvæmt stjórnarskránni. Þeir hefðu hins vegar átt að fá hana miklu fyrr. Sama gildir um þá, sem eru með mjög lágan lífeyri úr lífeyrisssjóði. Best að miða við lágmarkslaun Ï tengslum við þetta mál ætti Alþingi ef til vill einnig að samþykkja á ný eldri viðmiðun fyrir breytingar á lífeyri aldraðra og öryrkja, þ.e að miða ætti við breytingar á lágmarkslaunum verkafólks, þegar lífeyri væri breytt. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, lét breyta þessari viðmiðun þannig, að nú á að miða við launaþróun í stað lágmarkslauna en lífeyrir þó aldrei að hækka minna en vísitala neysluverðs. Hann lýsti því yfir í tengslum við þessa breytingu, að hún yrði hagstæðari lífeyrisþegum en eldra ákvæði. Það hafa seinni tíma stjórnmálamenn ekki viljað viðurkenna. Þeir hafa verið að reikna út minni hækkun fyrir lífeyris- þega en láglaunamenn hafa fengið. Því er einfaldast að færa orðalagið til fyrra horfs svo ekki þurfi að deila um viðmiðunina. Alþingi sameinist um afgreiðsluna Það er ekki oft, sem Alþingi sameinast um afgreiðslu mála. Oftast fær almenningur þá mynd af Alþingi, að þar sé hver höndin upp á móti annarri. En nú gefst Alþingi tækifæri til þess að sameinast um mikið sanngirnis- og réttlætismál og skapa jákvæðari mynd af störfum þingsins.

Hits: 1

Aldraðir íhuga að stefna ríkinu

Aldraðir íhuga að stefna ríkinu

26.08.2015 – 17:21 Mynd RÚV
Stór hluti ellilífeyrisþega er ágætlega settur en þeim sem líða skort hefur fjölgað. Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar félags eldri borgara í Reykjavík, segir að til greina komi að stefna ríkinu á grundvelli 76. greinar stjórnarskrárinnar.

Mannréttindi aldraðra séu brotin þar sem þeir verst settu séu ófærir um að taka þátt í samfélaginu. Aldraðir vilja að lífeyrir hækki í samræmi við laun á almennum vinnumarkaði og að kjaragliðnun sem varð árið 2009, þegar lífeyrir var frystur, verði leiðrétt.

Geta ekki leyft sér það sama og áður

„Hver er staðan, manni vefst nú bara tunga um tönn.“ Þetta er viðkvæðið þegar fréttamaður Spegilsins spyr hvað þeim finnist um kjör aldraðra. Þær sitja saman, nokkrar konur á níræðisaldri, við langborð í mötuneytinu í Árskógum, félagsmiðstöð fyrir aldraða í Breiðholti. Allar eru þær ekkjur og búa einar í sjálfseignaríbúðum fyrir aldraða. Þær fá ekki mikið frá lífeyrissjóðum og hafa sumar gripið til þess ráðs að taka veð í íbúðum sínum til að eiga fyrir lyfjum og öðrum útgjöldum. Þær eiga til hnífs og skeiðar en segjast ekki geta leyft sér það sama og áður. Þeir sem eru eignalausir eða leigja hafa það sjálfsagt verra, segja þær. Strípaðar bætur duga skammt.

Ekkert fyrir barnabörnin

„Ég hef til dæmis eiginlega ekkert annað í bili. Ég er búin að eyða öllum peningum sem ég gat notað í skemmtilegheit. Ég segi það ekki, ég hef nóg að borða. En þetta er ekki til að gera nokkurn skapaðan hlut, ekki gefa barnabörnum neitt. Maður er eins og fátæklingur með þetta frá tryggingunum,“ segir kona sem áður vann á skrifstofu, elliheimili og í búð, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hún greiddi ekki í lífeyrissjóð nema síðustu árin sem hún vann. „Ég held ég sé með um tíu þúsund krónur í lífeyrissjóð, eitthvað svoleiðis,“ segir hún og bætir við að það hafi verið mikil viðbrigði fyrir sig að fara á lífeyri.

„Haldið á hungurmörkunum“

Önnur fær meira út úr lífeyrissjóðnum en segir það litlu skila. „Ég er með lífeyrissjóð upp á kannski 80 þúsund og þá passar Tryggingastofnun það að skammta mér þannig að ég fari ekki uppfyrir 200. Það er króna á móti krónu þannig að því meira sem ég legg í pakkann því minna borgar Tryggingastofnun þannig að okkur er haldið á hungurmörkunum. Þó að það sé viðurkennt að lágmarks framfærslukostnaður sé miklu hærri,“ segir hún.

Leikhús og bíó ekki í boði

Maturinn er dýr, húsgjöldin, lyfin, sérstaklega á fyrsta úttektartímabili áður en afsláttur fæst. Þær fara ekki mikið í leikhús og bíó, þrátt fyrir að hafa gert það áður. Hvað þá til útlanda. „Ég fór mikið út áður og hafði ofboðslega gaman að, ég geri það ekki núna.“

Éta íbúðina sína

Þær reiða sig á sparnað eða taka lán út á íbúðina. „Fólk er að selja bankanum íbúðirnar sínar eða taka lán út á íbúðina til að nota lánið til daglegra nota. Við köllum þetta að éta íbúðina sína, þannig getur maður haft aura á móti því sem Tryggingastofnun skammtar okkur,“ segir ein og stalla hennar tekur undir. „Þetta gerum við, það er ekki séns að lifa eins og venjuleg manneskja af svona.“

Þær segjast ekki veigra sér við að gera þetta, til þess að börnin erfi meira heldur þvert á móti. „Í mínu tilfelli eru börnin alltaf að fá mig til að taka meira og meira, það er ekki málið. Mér bara leiðist að láta bankana klára þetta upp fyrir manni áður en maður drepst.“

Kerfið ekki sniðið að konum 

Þá benda þær á kynjaskekkju í kerfinu. Þær eiga mörg börn og gátu ekki unnið fullan vinnudag. „Það var ekki séns fyrir okkur þó við hefðum vilja senda öll börnin okkar á leikskóla þá var það ekki til, við vorum giftar konur. Kerfið er ekki sniðið að konum sem gátu í mesta lagi unnið hálfan vinnudag og ekki borgað í lífeyrissjóði nema í mesta lagi síðustu árin. Þess vegna er minn lífeyrir mjög lágur.“

Fimm barna framlag ekki metið

Ein leggur til að sitt framlag sé metið, fimm börn sem eru vel menntuð og leggja sitt af mörkum til þjóðfélagsins. „Hvers vegna í ósköpunum ætti maður ekki að fá að njóta þess frá þjóðfélaginu að hafa skaffað þessa góðu borgara, eins og ég segi, mér finnst þetta ekki nóg.“

Pilla á línuna

Þær segja suma hafa það mjög gott en þekkja einnig dæmi þess að fólk eigi ekki fyrir lyfjum. Þetta er kannski ágæt leið til þess að losna við okkur, kveður í einni. „Ríkið myndi spara stórfé ef það væru bara gefnar góðar pillur á línuna. Þá væri nóg eftir handa hinum sem eftir eru.“

Konurnar vilja að stjórnvöld standi við gefin loforð. „Þegar verkafólk hækkar um þrjú prósent og við eigum að hækka um 1% en gerum það ekki þá segir það allt um hver okkar staða er. Við erum enginn þrýstihópur. Það þýðir ekkert fyrir okkur að fara í verkfall og hætta að vera gömul.“

Einstæðingar á strípuðum bótum hafa það verst

Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík, verður var við það í sínu starfi að fleiri búi við þröngan kost en áður. Fólk hringir á skrifstofu félagsins og segist ekki eiga fyrir lyfjum og mat í lok mánaðar. Björgvin segir að hópurinn sem ekki á til hnífs og skeiðar sé ekki stór. Mjög margir verði þó að neita sér um ýmislegt sem þeir gátu veitt sér áður. Hann rekur ekki í vörðurnar þegar hann er spurður hverjir hafi það verst. Það séu einstæðingar á strípuðum bótum eða með lágan lífeyri. Þeir fá 192 þúsund krónur útborgaðar á mánuði, geti ómögulega leigt á almennum markaði og það sé hæpið að þeir geti rekið bíl.

Mannréttindi brotin

„Það er engin leið að lifa mannsæmandi lifi á þessum lága lífeyri og við teljum að með því að skammta svona naumt eins og ríkið gerir sé verið að brjóta mannréttindi á öldruðum og raunar öryrkjum líka,“ segir hann.

Hann segir marga hafa það ágætt. Sérstaklega fólk sem á skuldlaust húsnæði og er í góðum lífeyrissjóði, svo sem lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna. „En við erum ekki að berjast fyrir þá.“ Þá megi ekki ofmeta lífeyrissjóðina. Verkafólk og iðnaðarmenn fái oft um 50 – 100 þúsund greiddar úr lífeyrissjóði og það dugi skammt því bæturnar skerðist á móti.

Ríkið hindri eðlilega þátttöku

Á vefsíðu Reykjavíkurborg er fjallað um mannréttindi aldraðra. Fram kemur að þeir eigi meðal annars rétt til aðgengis og þátttöku, til framfærslu og félagsþjónustu og til atvinnu og tómstunda. Samkvæmt 76. grein stjórnarskrárinnar skal tryggja öllum rétt til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli og atvinnuleysis. Björgvin telur að stjórnvöld brjóti þessa grein, túlka megi hana þannig að stjórnvöld eigi að tryggja að aldraðir hafi nógu mikið milli handanna til að geta tekið eðlilegan þátt í samfélaginu.

„Þetta kom skýrt fram í máli fyrir skömmu þegar það var höfðað mál vegna þess að heyrnarlaus stúlka fékk ekki lögboðna túlkaþjónustu. Þá var það niðurstaða dómsins að þessi stúlka gæti ekki tekið eðlilegan þátt í samfélaginu vegna þess að hún fékk ekki þessa þjónustu. Eins teljum við hjá kjaranefnd eldri borgara að með því að skammta svona naumt til ákveðins hóps eldri borgara að þá sé verið að koma í veg fyrir að þessi hópur geti tekið eðlilegan þátt í samfélaginu.“

Boða lögmann Snædísar á fund

Hann vísar til máls Snædísar Ránar Hjartardóttur, heyrnarlausrar stúlku sem vann í sumar mál gegn ríkinu á grundvelli 76. greinarinnar. Kjaranefnd aldraðra hefur kallað tvo lögfræðinga til fundar við sig til að kanna hvernig landið liggur, annar þeirra er Páll Rúnar Kristjánsson, lögfræðingur Snædísar.

„Það eru ýmsir eldri borgarar sem hafa minnst á það við okkur að það væri svo komið að það þyrfti að stefna ríkinu. Það hefur vissulega verið rætt og það má segja að þessi fundur okkar í næsta mánuði, beinlínis í framhaldi af þessu máli fyrir hönd heyrnarlausu stúlkunnar, sem vannst. Það má segja að þetta sé fyrsta skrefið í að kanna hvort það sé grundvöllur fyrir því að fara í mál. Málið er að það eru margir eldri bogarar orðnir þreyttir á stjórnvöldum og það virðist vera sama hverjir eru við völd. Þess vegna hugleiða menn hvaða leiðir koma til greina. Þetta er ein leiðin að stefna ríkinu. Aðrir hafa nefnt framboð og það er vissulega verið að skoða marga möguleika,“ segir Björgvin.

Þrjár lágmarkskröfur eldri borgara

Björgvin segir lágmarkskröfur eldri borgara þrjár. Í fyrsta lagi að laun aldraðra hækki um 31 þúsund krónur strax í september, rétt eins og lágmarkstekjur verkafólks gerðu þann 1. maí og að hækkunin verði afturvirk um fimm mánuði. Í öðru lagi að lágmarkslífeyrir aldraðra hækki í 300 þúsund krónur á næstu þremur árum til samræmis við laun fólks á almennum vinnumarkaði og í þriðja lagi að stjórnarflokkarnir standi við kosningaloforð um að leiðrétta lífeyri vegna kjaragliðnunar.

„Það var samþykkt á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013 að það ætti að leiðrétta lífeyri aldraðra í samræmi við breytingar á lægstu launum, það þarf ekki að deila um við hvað var miðað. Það er ekki farið að gera neitt í þessu enn þann dag í dag. Á flokksþingi Framsóknarflokks var ályktað það sama, að það ætti að leiðrétta kjaragliðnunina. Við teljum að út af þessu og óuppfylltum loforðum öðrum varðandi kjaraskerðinguna frá 2009 skuldi ríkið lífeyrisþegum 30 milljarða. Síðan er það okkar útreikningur að þessi gliðnun, því það er komin ný gliðnun því lífeyrir hefur ekki hækkað til samræmis við laun frá 1. maí, bara fyrir tímabilið frá 1. maí til áramóta, það eru 8 milljarðar. Þannig að þetta verður komið í 38 milljarða. Það mætti byrja á því að borga þessa skuld við lífeyrisþega og lagfæra kjörin,“ segir hann.

Loforð Bjarna ekki nóg

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hefur lýst því yfir að hann muni leggja fram frumvarp um 8,9% hækkun lífeyris í september. Hækkunin eigi að taka gildi um áramótin. Björgvin segir það ekki duga til og segir það hneyksli að hækkunin eigi að koma til framkvæmda átta mánuðum eftir að fólk á almennum vinnumarkaði fékk sína fyrstu hækkun. Lífeyrir þyrfti að hans mati að hækka um 14% þegar í stað og um 28% á næstu þremur árum, í takt við launaþróun á almennum markaði. Þá hefur ekki verið tekið tillit til kjaragliðnunarinnar.

Tók málefni aldraðra ekki sérstaklega fyrir

Björgvini misbýður áhugaleysi stjórnmálaflokka á málunum og segir það úrlausnarefni fyrir stjórnmálafræðinga og sálfræðinga að kanna hvað veldur. Sjálfur var hann borgarfulltrúi fyrir Alþýðuflokkinn árin 1962 – 1982 en tók málefni aldraðra ekkert sérstaklega fyrir þá, það skortir einhvern áhuga hjá unga fólkinu, segir hann.

Hits: 0

Búseta 1.000 eldri borgara í uppnámi

Búseta 1.000 eldri borgara í uppnámi

 SKOÐUN
07:00 24. ÁGÚST 2015

Haraldur Finnsson
Haraldur Finnsson
HARALDUR FINNSSON SKRIFAR

Búmenn er húsnæðissamvinnufélag fyrir 50 ára og eldri. Það á 540 íbúðir í 13 sveitarfélögum. Á höfuð­borg­ar­svæð­inu eru þessar íbúðir eftir­sóttar enda mjög hentugar fyrir eldra fólk. Í íbúðum þeirra búa nú nær 1.000 manns við óvissu eftir að félagið fór í greiðslustöðvun í vor. Gjaldþrot félagsins hefði ófyrir­sjáanlegar af­leið­ingar, bæði fyrir íbúana og Íbúða­lánasjóð, sem myndi tapa mikl­um fjármunum. Meðal­aldur íbúanna er 70-75 ár, flestir því eftir­launafólk sem hefur þurft að taka á sig miklar kjara­skerðingar á liðnum árum.

Ef ekki á illa að fara verða stjórn­völd, bæði ríkis og sveitar­fél­aga, að koma að lausn málsins. Stjórn­­­­­völd bera ábyrgð á því hvernig er komið, m.a. með því að íbúar hús­næðis­sam­vinnufélaga sátu ekki við sama borð og aðrir íbúðareigendur varð­andi leið­rétt­ingu á hús­næðis­lánum og reyndar af fleiri ástæðum. Í regl­um Íbúða­lána­sjóðs segir að meta skuli þörf fyrir húsnæði. Þrátt fyrir það var lánað til bygginga á svæðum þar sem þörfin var ekki fyrir hendi, líklega fyrir þrýsting frá sveitar­félög­unum.

Tugir tómra íbúða
Ábyrgðin er því ekki eingöngu stjórn­enda félagsins þó vissulega hafi ýmislegt farið úrskeiðis hjá þeim. Vandi félagsins felst einkum í endurgreiðslu á búseturétti í íbúð­­um sem ekki hefur tekist að selja aftur. Félagið situr uppi með nokkra tugi tómra íbúða í nokkrum sveitarfélögum, eink­um á Suðurnesjum og í Hvera­gerði. Vand­­inn er bundinn við ákveð­in svæði, annars staðar eru íbúð­irn­ar eftir­sóttar. En allir íbúar Búmanna­íbúða eru samábyrgir. Þegar al­menn­ir sjóðir félagsins dugðu ekki til að greiða út búseturétti greip stjórn­­in til þess óyndisúrræðis að nýta Viðhaldssjóð félagsins sem all­ir íbúar hafa greitt í til að sinna eðli­legu viðhaldi, án þess að spyrja eða láta íbúa vita.

Hvergi kemur fram í lögunum að sú notkun sjóðsins sé heimil. Þarna var fé í eigu félagsmanna notað á mjög vafasaman hátt. Stjórn félagsins hefur tregðast við að upplýsa og hafa samráð við félags­menn. Hefur frestað að halda aðal­fund fram í september þó sam­þykkt­ir segi að hann skuli halda í júní. Þrátt fyrir að lög og sam­­þykktir segi til um að þá skuli ráðu­neyti grípa inn í þá gerist ekkert.

Núverandi staða íbúanna er mis­jöfn eftir byggingarflokkum en greiðsl­ur af lánum hafa hækkað jafnt og þétt og auk þess þarf að greiða fasteignagjöld, tryggingar, rekst­­ur húsfélagsins og svo áfram í við­haldssjóð sem er nánast tómur eft­ir að hafa verið (mis)notaður í að greiða út búseturéttargjöld. Sér­­staklega bitnar þetta illa á ein­hleypum og þeim sem missa maka og þurfa að greiða af íbúð sinni einir. Þegar mánaðargjöld af íbúð hjá Búmönnum eru komin í 150-200 þúsund á mánuði þá er ljóst að staðan er alvarleg fyrir einstakling á lág­markslífeyri.

Boðuð frumvörp um húsnæðismál duga ekki í þessu máli. Leysa verður málið strax. Annars lenda 1.000 íbúar, flestir á eftirlaunaaldri, í ógöng­­um með búsetu sína. Hvernig ætla sveitarfélögin, þar sem þessar íbúðir eru, að bregðast við?
Á enn einu sinni að herða að eftir­launafólki og ganga á rétt þess?

Hits: 0

Björgvin Guðmundsson

Gróf mannréttindabrot á öldruðum og öryrkjum!

 

SKOÐUN í VÍSIR

07:00 20. ÁGÚST 2015

Björgvin Guðmundsson, viðskiptafræðingur.
Björgvin Guðmundsson, viðskiptafræðingur.
BJÖRGVIN GUÐMUNDSSON SKRIFAR

Enn einu sinni er verið að brjóta mannréttindi á öldruðum og öryrkjum. Árin 2009 og 2010 var lífeyrir frystur. Láglaunafólk fékk á því tímabili 16% kauphækkun en aldraðir og öryrkjar fengu ekki eina krónu. 1. maí sl. fékk láglaunafólk 30 þúsund króna kauphækkun á mánuði en aldraðir og öryrkjar ekki eina krónu. Og lífeyrisþegum var hreinlega tilkynnt, að þeir fengju enga hækkun í 8 mánuði! Þetta er mismunun og gróft mannréttindabrot.

Lífeyrisþegum er neitað um hliðstæðar kjarabætur og launþegar eru að fá. Nær allir launþegar landsins eru að fá verulegar kjarabætur en lífeyrisþegar eru sniðgengnir. Ríkisstjórnin neitar eftirlaunamönnum um sömu hækkun. Ég tel þetta brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og brot á 76. greininni en samkvæmt henni er réttur aldraðra og öryrkja til þess að taka eðlilegan þátt í samfélaginu varinn.

Sama framkoma við aldraða og áður
Þetta er sama framkoma við aldraða og öryrkja og átti sér stað í tíð fyrri ríkisstjórnar, þegar laun embættismanna, dómara og alþingismanna voru færð til baka og síðan leiðrétt á ný. Lífeyrir eldri borgara og öryrkja var einnig skertur, færður til baka. Við leiðréttingu launa hátekjumannanna var leiðréttingin ekki látin duga heldur fengu hátekjumennirnir kauphækkunina greidda til baka, aftur í tímann! En aldraðir og öryrkjar voru hlunnfarnir. Þeir fengu enga leiðréttingu á sama tíma. Samt höfðu þeir mátt sæta kjaraskerðingu eins og hátekjumenn. Við leiðréttingu á launum voru þeir skildir eftir. Það voru brotin mannréttindi á þeim að mínu mati.

Þegar kjör aldraðra og öryrkja voru skert 2009 voru einnig framin mannréttindabrot. Í mannréttindasáttmálum, sem Ísland er aðili að, segir, að ef færa eigi kjör aldraðra og öryrkja til baka vegna efnahagserfiðleika, eigi fyrst að kanna hvort unnt sé að fara aðra leið. Það var ekki gert 2009. Þess vegna var þá um mannréttindabrot að ræða.

Lífeyrir aldraðra og öryrkja ítrekað frystur
Stjórnvöld hafa hvað eftir annað leikið þann leik að taka 69. grein laga um almannatryggingar úr sambandi en þar segir, að við breytingu á lífeyri aldraðra og öryrkja eigi að taka mið af launaþróun en lífeyrir aldrei að hækka minna en vísitala neysluverðs. Frá þessu hefur ítrekað verið vikið og lífeyrir aldraðra og öryrkja frystur langtímum saman á sama tíma og láglaunafólk hefur verið að fá kjarabætur. Það er lögbrot og sennilega mannréttindabrot.

Auk þess hefur hvað eftir annað verið klipið af launauppbótum til lífeyrisþega. Nærtækasta dæmið í því efni er það, að lífeyrir aldraðra og öryrkja var hækkaður um 3% í janúar 2015, en kaupmáttur jókst um 5,8% árið 2014. Þarna var því verið að klípa af réttmætum og eðlilegum uppbótum til lífeyrisþega. Að mínu mati er þarna verið að brjóta mannréttindi á lífeyrisþegum. En einnig er verið að brjóta lög.

Alþjóðlegir mannréttinda- sáttmálar brotnir
Ísland er aðili að mörgum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Mikilvægastur þeirra er mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt henni eiga allir rétt á félagslegu öryggi.

Og allir eiga rétt á lífskjörum, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra og fjölskyldna þeirra svo og rétt á félagslegri þjónustu, rétt til öryggis vegna veikinda, elli eða annars, sem skorti veldur. Það er ekki verið að framfylgja þessum ákvæðum á sama tíma og hópur aldraðra og öryrkja hefur ekki fyrir mat í lok hvers mánaðar. Og sá sami hópur hefur ekki efni á því að leita læknis eða leysa út lyfin sín. Það er til skammar, að slík fátækt skuli eiga sér stað á Íslandi. Þessi fátækt er blettur á íslensku þjóðinni og þann blett verður að afmá.

Hits: 0

Mettuð fita ekki eins hættuleg og áður var talið

ruv-1
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Niðurstöður stórrar nýrrar rannsóknar sýna ekki tengsl milli neyslu mettaðrar fitu og skaðlegra áhrifa á heilsu. Áður hefur verið talið að mikil neysla á mettaðri fitu auki hættuna á hjartasjúkdómum, hjartaáföllum og áunninni sykursýki.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í British Medical Journal. Þetta kemur fram á vef The Independent.

Vísindamenn við McMaster háskólann í Ontario í Kanada rannsökuðu tengsl milli mikillar neyslu á mjólkurvörum, kjöti og eggjum, sem innihalda mikla mettaða fitu, og aukinnar hættu á hjartasjúkdómum, hjartaáföllum og áunninni sykursýki. Þeir fundu ekki tengsl þarna á milli.

Niðurstöðurnar rannsóknarinnar sýndu á hinn bóginn fram á tengsl neyslu transfitu, úr hertri fitu og olíum, við kransæðasjúkdóma.

Þó ekki sannað að engin tengsl séu á milli neyslu mettaðrar fitu og hjartasjúkdóma
Þrátt fyrir niðurstöður rannsóknarinnar mæla vísindamennirnir ekki með því að fólk neyti meiri matar með mikla mettaða fitu. Þótt engin bein tengsl hafi fundist milli sjúkdóma og mettaðrar fitu fundust heldur engar vísbendingar um að þetta sé sérstaklega gott fyrir heilsu fólks.

Hits: 0

Hreinsiefni fyrir kísil

Hreinsiefni fyrir kísil

 

Ódýr og góð hreinsefni eru jafnan nærtak á flestum heimilum, auk þess eru þau umhverfisvæn.

Þar er átt við:

Borðedik: Oft kallað glært edik er lífrænt þ.e. þynnt ediksýra. Borðedik klýfur fitu og nær fram gljáa og eyðir vondri lykt.  

Rúðuúði: Blandið vatni og ediki,1 hl. edik ámóti 10 af vatni í blómaúðabrúsa og úðið á gler og spegla. Þurrkið vel og strjúkið yfir með gömlum krumpuðum dagblöðum. Prentsvertan eykur gljáa.

Salernishreinsir: Ediki er hellt í skálina og látið liggja yfir nótt. Burstað vel og sturtað niður. Ef þvottur lætur lit er gott að leggja hann í bleyti í vatn með ediki , 4 msk af ediki í 5 l vatni. Látið liggja í ca ½ klst. Skolað og þvegið á venjubundin máta. Eins má setja dálítið af ediki í þvottavélina í stað þvottaefnis til að flík haldi betur lit sínum.  

Lykteyðir

Vond lykt í íbúðinni. Setjið borðedik í skál og látið standa á eða nálægt ofni.

Ef vond lykt er af skurðarbrettum er gott að skrúbba þau upp úr ediki og skola vel.

Kaffivélar má þvo með því að láta edik í stað vatns í vélina og láta hana ganga. Endurtekið tvisvar með vatni til að eyða edikslyktinni.

Ef vond lykt er úr ískápnum er gott ráð að þvo hann upp úr ediksvatni og skola vel á eftir.

Þegar eldaður er lyktsterkur matur eins og t.d. skata er gott að vinda viskustykki uppúr ediki og leggja yfir pottlokið og vel út fyrir brúnir þess. Gæta samt vel að það snerti ekki eldavélahelluna.

Kattahlandslykt hverfur ef úðað er á blettinn ediksblönduðu vatn (1 hl. Á móti 5).

Þrif á flísum og sturtuklefum. Það er nauðsynlegt að þrífa baðherbergi og eldhús reglulega.

Góð aðferð við þrif á fúgum milli flísa er að nota blöndu af ediki, lyftidufti eða matarsóda og sítrónusafa. Borið á og látið standa jafnvel í nokkra klukkutíma, skolað vel og þurrkað.

Sítróna er náttúrulegt bleikiefni

Sítróna eyðir fitu og gefur ferska og góða lykt. Hún er líka áhrifarík við að þrífa kísil sem vill setjast í kringum blöndunartæki á baði og í eldhúsi. Einfaldast er að skera sítrónu í tvennt og nudda eða bera á óhreinindin, láta bíða um stund, skrúbba með bursta og skola vel með köldu vatni og þurrka.

Sama er að segja um sturtuklefa, en þeir vilja verða gráir og mattir af kísilnum úr hitaveituvatni. Nudda vel með sítrónu eða þvo með ediksblöndu. Láta liggja á og skola vel á eftir. Fyrirbyggjandi ráð er að gera sér að reglu að skola klefann eftir notkun með köldu vatni og helst þurrka líka.

Nýja ávaxtabletti í fötum er gott að nudda með sítrónuhelmingi og skola vel og þvo á eftir.

Sítróna er góð til að þrífa t.d. ísskáp og örbylgjuofn. Best er að setja skál með vatni og skera sítrónu í sneiðar út í og setja í örbylgjuofninn, stilla á hæstu stillingu í 2 mínútur. Þá hafa óhreinindin losnað og ekki annað eftir en að strjúka ofninn að innan, með rökum klút og þurrka síðan.

Flísar á baði og í eldhúsi verða skínandi hreinar ef þær eru nuddaðar með sundurskorinni sítrónu, látið liggja á svolitla stund og skolað vel á eftir og þurrka.

Edik og sítróna eru gagnleg á áfallin kopar. Þá er best að úða hlutin með ediksblönduðu vatni og salti.

Skera má sítrónu í 2 hluta og hafa gróft salt við höndina og nudda hlutinn með því. Láta bíða um stund og pússa síðan.

Ólykt úr sorpkvörn hverfur ef ef sítrónubörkur er látin ganga í gegnum kvörnina.

Sítrónudropar (bökunardropar) duga vel til að hreinsa límrestar af gleri.

Matarsódi og lyftiduft

Lögur á silfurhluti, sem auðvelt er að margfalda:

1 tsk. matarsódi

1 tsk lyftiduft

2 ½ dl soðið vatn (ekki nota hitaveituvatn).

Allt sett í plastílát, hrært vel í. Hlutirnir settir út í, látnir standa um stund. Skolað úr köldu vatni og fægt með mjúkum klút.

Matarsódi eyðir vondri lykt t.d. úr skápum, þá er best að setja 2-3 tsk í lítið ílát og láta standa í skápnum í nokkra daga.

Til að þvo eldhúsbekki og veggflísar er gott að strá matarsóda á rakan svamp og þurrkar yfir, nær mjög vel fitu. Þurrka yfir með hreinu vatni.

Blóðblettir geta verið erfiðir, en matarsódi hrærður með vatni í þykkan graut gerir gagn. Þá er „grauturinn“ borin á blettinn og látin þorna. Burstað af og þvegið.

Hits: 29