Framboð eða sérframboð eldra fólks

Framboð eða sérframboð eldra fólks

Svanfríður Jónasdóttir

Svanfríður Jónasdóttir fyrrverandi bæjarstjóri skrifar

Ég fór í óperuna eitt laugardagskvöldið, sem ekki er til sérstakrar frásagnar hér, nema það var mjög gaman. En í hléi, þegar ég stóð frammi með glasið mitt og hafði góða yfirsýn yfir fólkið sem streymdi framhjá tók ég eftir að margar konur voru haltar eða gengu þannig að augljóslega var eitthvað að þeim í fótunum. Líklega veitti ég þessu athygli þarna í fyrsta sinn því undanfarið hef ég sjálf verið í vandræðum með skó vegna tábergssigs í vinstri fæti. Og þegar ég stóð þarna í fínu skónum mínum, og fann fyrir því, sá ég skyndilega vanda hinna kvennanna. Horft til baka þá man ég eftir fleiri konum sem tipluðu eins og til að þurfa ekki að stíga í fótinn. Merkilegt að upplifa þetta með eldinn sem á brennur svona sterkt, þó í smáu sé. Þegar maður er sjálfur kominn í tilteknar aðstæður þá kemur maður betur auga á ýmislegt sem áður fór framhjá og er því tilbúnari til að leita leiða til breytinga ef þarf. Því er svo mikilvægt að þeir sem eldurinn brennur á hverju sinni séu með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um kjör þeirra og stöðu. Slagorð Öryrkjabandalagsins ,,Ekkert um okkur án okkar“ segir nákvæmlega það sem segja þarf um það mál.

Þetta er orðið nokkuð langt tilhlaup að því að fjalla um framboð eldri borgara, en undanfarið hefur komið upp í umræðunni að aldraðir ættu að fara í sérframboð til að treysta stöðu sína. Eldra fólk á endilega að vera í framboði og taka þátt í pólitísku starfi og tryggja það með öllum ráðum að fulltrúar þeirra séu á vettvangi þegar vélað er um þau mál sem sérstaklega brenna á þeim. Þetta á við um Alþingi, og ekki síður um sveitarstjórnir því félagsleg þjónusta við aldraða heyrir undir þær. Mér finnst hinsvegar mikið vafamál að sérframboð standi undir væntingum. Framboðshreyfingar eru krafðar um afstöðu til ýmissa þjóðmála, enda verða kjörnir fulltrúar þeirra að greiða atkvæði um ýmis önnur mál en réttinda- og framfaramál fyrir viðkomandi framboð ef þeir ná kjöri. Þar á meðal eru mál sem talin eru skipa fólki í hefðbundnar pólitískar fylkingar; hægri eða vinstri. Um leið og reyndi á í öðrum heitum pólitískum málum en þeim sem varða viðkomandi framboð er hætt við að baklandið færi að riðlast. Eða af hverju ættu viðhorf okkar til umhverfismála, opinberra afskipta, einkavæðingar og skattastefnu að breytast þó við eldumst?

Á næstu árum þarf að gera ráð fyrir stórauknum fjölda eldri borgara á Íslandi. Stóru kynslóðir eftirstríðsáranna eru óðum að komast á lífeyrisaldur og við því þarf þjóðfélagið að bregðast. Þær ráðstafanir sem gera þarf til að bregðast við þessum þjóðfélagsbreytingum hljóta að verða ofarlega á verkefnalistum stjórnmálaflokkanna og áherslur þá í samræmi við grundvallarhugmyndir í hverjum flokki. Árangursríkast væri ugglaust að eldra fólk starfaði í staðbundnum félögum eldri borgara sem gætu verið mun beittari í hinni þröngu hagsmunabaráttu, í landssamtökum eldri borgara, og tækju síðan virkan þátt í starfi stjórnmálaflokkanna í samræmi við grundvallarskoðun sína í pólitík og gætu þá brýnt fyrir félögunum að þegar fólk er komið í tilteknar aðstæður, og finnur verkinn, er því best treystandi til að leita lausnanna og fylgja þeim eftir. Stjórnmálaflokkarnir eru með eldriborgarahreyfingar og í gegnum þær ættu hinir eldri að gera ríkari kröfur um meiri völd í samræmi við fjölda sinn, möguleg áhrif í kosningum og síðast en ekki síst, vaxandi mikilvægi þeirra málefna sem á þeim brenna. Þar mun enginn pólitískur flokkur geta skilað auðu.

Hits: 0

Sykur er eitur

Sykur er eitur: Að hætta sykurneyslu getur skilað betri heilsu á nokkrum dögum

Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að það sé mikilvægara að telja það magn sykurs sem er innbyrt en að telja þær hitaeiningar sem eru innbyrtar. Rannsóknin sýndi að á aðeins 9 dögum breyttis heilsufar barna til hins betra ef sykri var skipt út fyrir önnur efni.

Niðurstöður rannsóknarinnar, sem var stýrt af Dr. Robert Lustig hjá Kaliforníuháskóla í San Francisco, tengja sykur við efnaskiptasjúkdóma, sjúkdóma eins og of háan blóðþrýsting, of mikið magn blóðsykurs, mikla magafitu og óeðlilegt magn blóðfitu.

CBC hefur eftir Dr. Peter Lin, sem vann ekki að rannsókninni, að sjúklingar sem þjást af efnaskiptasjúkdómum fái oftar hjartaáfall og heilablóðfall en aðrir og séu líklegri til að deyja ótímabærum dauða. Þess vegna sé sykur eitur í þessum skilningi málsins.

Lin sagði að venjan væri sú að heilbrigðisstarfsfólk hvetji fólk til að léttast með því að bæta mataræði sitt og hreyfa sig meira. Þetta séu góð og gild ráð en niðurstöður rannsóknarinnar bendi til að fólk geti náð betri árangri á skemmri tíma ef það sker sykurneyslu sína niður.

Í rannsókninni voru áhrif sykurneyslu á 43 börn og ungmenni á aldrinum 9 til 18 ára rannsökuð. Sykur var fjarlægður úr mataræði þeirra en þau voru látin innbyrða sama magn af hitaeiningum. Afleiðingarnar voru þær að blóðþrýstingur barnanna lækkaði, magn blóðfitu minnkaði, lifrin starfaði betur og blóðsykurmagn lækkaði.

Lin benti á að það athyglisverða við rannsóknina væri að hún hefði aðeins staðið yfir í níu daga.Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í tímaritinu Obesity.

Hits: 0

Þessi einkenni gætu verið merki um sykursýki

Þessi einkenni gætu verið merki um sykursýki

Skyndilegt þyngdartap

Hátt hlutfall blóðsykurs getur valdið skyndilegu þyngdartapi því upptaka líkamans á glúkósa er úr skorðum. Glúkósi (sykur) skilar sér með þvagi í stað þess að nýtast sem orka. Þannig tapar líkaminn hitaeiningum og það getur valdið því að þú léttist skyndilega. Fjöldi ferða á salernið getur einnig valdið aukinni hungurtilfinningu. Líkaminn getur ekki bætt upp þessar hitaeingingar og þess vegna ertu sífellt borðandi en heldur áfram að léttast.

Ef þú léttist óvænt um 5 til 10 kíló yfir nokkurra mánaða skeið skaltu hafa samband við lækni. Blóðprufa sker úr um hvort um sykursýki sé að ræða og hægt er að hefja meðferð strax.

Mynd: Getty
Mynd: Getty

Mikill þorsti

Ef þú þarft á klósettið í tíma og ótíma gæti það verið merki um sykursýki 2. Sérstaklega ef þú vaknar á nóttunni til að pissa. Þar sem sykursjúkir hafa aukið magn sykurs í blóðinu eru nýrun sífellt að reyna að losa þá við sykurinn. Það sem nýrun ráða ekki við fer út með þvagi. Því meira sem lagt er á nýrun því meira þarf maður að pissa. Þessu fylgir gríðarmikill þorsti til að bæta upp fyrir allan þann vökva sem þú tapar í ferlinu.

Mikið hungur

Annað varúðarmerki er skjálfti eða svimi, mikið hungur, og sterk löngun í kolvetni eða sykur. Hár blóðsykur veldur því að líkaminn á erfitt með að hafa stjórn á glúkósa. Frumur þínar þurfa glúkósa svo þú fáir orku. Líkami þinn þarf insúlín til að koma glúkósa í frumurnar. Insúlínskortur veldur því að líkaminn fær ekki nægan glúkósa og því færðu þessa sterku löngun. Skyndilegar breytingar á blóðsykri valda mikilli hungurtilfinningu. Ef þessi tilfinning er yfirþyrmandi og varir í lengri tíma væri gott að panta tíma hjá lækni.

Mikil þreyta

Það er ekkert óeðlilegt að fólk verði þreytt af og til í amstri dagsins. En ef mikil þreyta og orkuleysi gerir vart við sig alla daga gæti það verið merki um sykursýki 2. Þreyta ein og sér er ekki mikið áhyggjuefni en ef önnur hættumerki hafa gert vart við sig gæti verið ráð að leita til læknis. Þegar frumurnar fá ekki glúkósa skortir þær orku og þar af leiðandi finnur þú til þreytu og orkuleysis.

Sjónskerðing

Óskýr sjón getur einnig verið merki um sykursýki því blóðsykur hefur áhrif á augun og getur valdið alvarlegri sjónskerðingu ef ekkert er að gert. Mikilvægt er að leita til augnlæknis ef þessi einkenni gera vart við sig.

Lakara ónæmiskerfi

Sykursýki getur hægt á ónæmiskerfinu og dregur úr getu þinni til að berjast gegn veikindum. Algengustu kvillarnir eru sveppasýkingar og ef slíkar sýkingar gera vart við sig trekk í trekk skaltu láta kanna málið.

Sár gróa hægt

Sár sem gróa hægt eða mikið af marblettum geta verið merki um sykursýki 2. Ef sár hafa ekki gróið eftir nokkrar vikur gæti það verið að blóðsykur sé of mikill og ónæmiskerfið lakara. Ef ekkert er að gert skapast hætta á alvarlegum sýkingum.

Doði

Sykursýki getur haft áhrif á blóðflæði til útlima og valdið doða. Ef þessu tilfinning varir til lengri tíma skal leita til læknis svo ekki komi til taugaskemmda.

Húðvandamál

Sykursýki 2 getur haft áhrif á allan líkamann og þar sem við erum að mestu gerð úr vatni hefur vökvatap mikil áhrif á húðina. Kláði, blöðrur, sýkingar í kringum neglur, og litabreyting á húð aftan á hálsi, í klofi eða undir handakrikum, eru meðal hættumerkja. Allt gengur þetta til baka ef komið er auga á einkenni og gripið inn í.

Skapstyggð

Langvarandi skapstyggð er oft merki um veikindi og ef þú parar það saman við önnur einkenni er ef til vill ekki skrýtið að þú sért ekki glaður í bragði. Líkaminn er í ójafnvægi og hann skortir orku. Langvarandi skapstyggð sem á sér ekki aðrar skýringar í þínu daglega lífi gæti verið merki um sykursýki 2. Það sakar ekki að kanna málið.

Mikilvægast er að koma auga á einkenni sem fyrst og fá viðunnandi meðferð.

Heimild: Hit The News

Hits: 0

Ömmur á leið í atvinnuviðtal

Ömmur á leið í atvinnuviðtal

Gísli Matthías Auðunsson

„Viðbrögðin við auglýsingunni hafa verið mjög góð. Það hafa nokkrar konur haft samaband og þær fyrstu eru að koma í atvinnuviðtal í dag, föstudag,“ segir Gísli Matthías Auðunsson eigandi Matar og drykkjar. Það er ekki oft sem að fyrirtæki auglýsa eftir starfsfólki sem komið er yfir sextugt , það gerðist þó í vikunni þegar Matur og drykkur auglýsti á fésbók eftir tveimur eldri konum til starfa. „Skilyrðin eru að þær séu konur eldri en 60 ára, hafi gaman að íslenskum mat og drykk og geta unnið aðra hverja helgi frá 10.30 – 14.30. Þekkir þú hressa ömmu sem vantar örlitla aukavinnu og langar að hafa gaman,“ segir í auglýsingunni. „Við erum hátt í tuttugu sem vinnum hjá Mat og drykk, meiri hlutinn yngra fólk. Okkur langar að fá eldra fólk til starfa til að breikka aldursbilið. Það er nauðsynlegt að hafa eldra og reynslumeira fólk í hópnum,“ segir hann og bætir við. „Hér starfa góðir fagmenn. Við erum að fara af stað með dögurð eða brunch. Svo það er ýmislegt skemmtilegt í bígerð hjá okkur.“ Fyrir áhugasama má geta þess að enn er tekið við umsóknum.

Hits: 0

Eldri borgarar hugsanlega fram með Pírötum

Félag eldri borgara útilokar ekki að láta að sér kveða í næstu alþingiskosningum. Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segir jafnvel koma til greina að mynda stjórnmálaafl með Pírötum.

Þórunn var gestur Morgunvaktarinnar í morgun. Hún sagði margar áskoranir hafa komið fram á eldri borgara. „Ein besta uppástungan sem ég hef heyrt í þessum málaflokki er sú að við höllum okkur að, að fara í framboð með Pírötum. Og það er margt vitlausara. Þetta er náttúrulega flokkur með dálítið ómótaða stefnu og kannski þyrfti bara á okkur að halda, vegna þess að reynslumikið fólk í þessum hópi getur einmitt bætt breiddina hjá unga fólkinu,“ segir Þórunn. 

Hún segir að oft á tíðum ráði vaninn þegar komið er í kjörklefann. „En ég held að ólgan meðal eldri borgara núna, hún sé óvenju mikil.“

Vanþróaður leigumarkaður

Þórunn sagði ástandið á leigumarkaði eitt af stærstu vandamálunum sem eldri borgarar standi frammi fyrir. „Síðan er Ísland svo vanþróað á leigumarkaði. Þar er versti vandinn. Þeir sem leigja eru mjög illa varðir. Það er engin löggjöf, það er ekkert öryggi. Og það er að mínu viti löngu tímabært að gera uppreisn út af þessum leigumarkaði,“ segir Þórunn. Hún tekur sem dæmi eldri borgara sem leigir stakt herbergi, með aðgang að salerni með öðrum, á 58 þúsund krónur. „Þá segir hún marga eldri borgara standa illa, vegna þess að lengi vel var fæðingarorlof ólaunað, og allt til ársins 2000 var ekki greitt í lífeyrissjóð af fæðingarorlofsgreiðslum.  

Gleymdur hópur eldri borgara

Sá hópur eldri borgara sem hafi einna lökustu kjörin séu nýbúar. „Það er einn gleymdur hópur þarna, það eru okkar fyrstu nýbúar eða aðstandendur þeirra sem fluttu hingað á grundvelli fjölskyldusáttmála,“ segir Þórunn. „Eldri borgarar eiga ekki fullan rétt í almannatryggingum, þeir eiga í hlutfalli af árunum sínum á landinu. Þarna er hópur sem verður fátækur,“ segir Þórunn. Þessi hópur geti búið við sára fátækt. „Alveg eins og við erum að tala um flóttamennina núna, þá eigum við líka að sýna okkar manngæði gagnvart þessum hópi,“ segir Þórunn.

Hits: 0

Aldraðir og öyrkjar svelta meðan fjármálaráðuneytið leggur til að bankabónusar tvöfaldist

Aldraðir og öyrkjar svelta meðan fjármálaráðuneytið leggur til að bankabónusar tvöfaldist

Skoðað: 1924

Reikniskúnstir fjármálaráðherrans.
Reikniskúnstir fjármálaráðherrans. MYND: Gunnar Karlsson

Það er ekki hægt annað en lýsa yfir megnasta viðbjóði á stjórnarháttunum sem stundaðir eru í þessu þjóðfélagi nú til dags.
Meðan aldraðir og öryrkjar eru svo gott sem sveltir til dauða á tekjum sem eru langt undir viðmiðunarmörkum sem velferðarráðuneytið hefur sett og ráðherra velferðarmála og fjármála með fulltingi Alþingis alls gerir ekkert til að bæta hag þessa þjóðfélagshóps, þá berast þær fréttir úr fjármálaráðuneytinu að bónusar í einhverjum mestu þjófabælum á vesturlöndum megi alveg tvöfaldast að skaðlausu.

Í Kjarnanum segir eftirfarandi:

Fjármála- og efnahagsráðuneytið telur að það yrði að „skaðlausu“ að veita fjármálafyrirtækjum heimild til að greiða tvöfalt hærri bónusgreiðslur en núverandi reglur kveða á um og þær megi því vera allt að 50 prósent af föstum árslaunum starfsmann. Þá mætti einnig skoða að smærri fjármálafyrirtækjum yrði leyft aðgreiða hlutfallslega enn hærri kaupauka til starfsmanna, til dæmis 100 prósent af árslaunum, heldur en stóru viðskiptabönkunum.  Samkvæmt lögum sem nú eru í gildi mega bónusar starfsmanna fjármálafyrirtækja vera 25 prósent af föstum árslaunum þeirra.

Á sama tíma og þetta er að gerast hafa aldraðir og öryrkjar hvað eftir annað gert þá kröfu að bætur þeirra hækki til samræmis við það sem lög gera ráð fyrir og fylgi kjarasamningum á almennum markaði, án árangurs Skilaboðin sem lífeyrisþegar þessa lands fá frá ráðamönnum eru einfaldlega að halda kjafti og þakka fyrir að fá þó það sem að þeim sé rétt.  “Þið hafið það alveg nógu gott helvítin ykkar” eru þau skilaboð sem Bjarni Benediktsson, Eygló Harðardóttir og restin af ríkisstjórninni sendir rúmlega þrjátíu þúsund einstaklingum sem margir hverjir eiga ekki fyrir mat eða lyfjum út mánuðinn.  Það er margsannað mál að Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei verið hliðhollur öldruðum og öryrkjum og mun aldrei verða það.
Því lítur út fyrir að eina leiðin til að sækja réttlát kjör, sé hreinlega að stefna ríkinu.

Svo maður tali nú ekki um þá félgaslegu einangrun sem fátækt getur valdið.

Gamla fólkið sem byggði upp þetta þjóðfélag undir rassgatið á núverandi ríkisstjórnarmeðlimum hefði betur tekið fastar á þessum silfurskeiðungum og rasskellt þá almennilega í uppvextinum og látið þá vinna almennilega vinnu í stað þess að þagga niður í frekjuöskrunum í þessum aumingjum með því að stinga upp í þá sælgæti.
Aumingja fólkið vildi vel, vildi ekki að þessir duglausu ræflar og sjálfhyggjuaumingjar þyrftu að þræla sér til húðar fyrir fertugt og hefnist nú fyrir það því þeir eru búnir að bíta höndina sem fæddi þá, af við öxl.
Er nema von að fjölgun alraðra með sjálfsskaða og tilraun til sjálfsvíga hafi snaraukist siðan þessi stjórn komst til valda?

Það er hreint ógeðslegt að sjá hvernig Bjarni Benendiktsson kemur fram við gamla fólkið í þessu landi og það fólk sem hefur unnið frá sér heilsuna langt fyrir aldur fram.

Meira úr grein Kjarnans:

Íslandsbanki og Arion banki gjaldfærðu samtals um 835 milljónir króna vegna kaupaukagreiðslna til starfsmanna sinna á síðasta ári. Um hundrað starfsmenn fá slíkar greiðslur hjá hvorum banka fyrir sig. Arion banki gjaldfærði 477 milljónir króna í fyrra sem var 25 milljónum króna meira en árið á undan. Samtals hefur bankinn því gjaldfært tæpan milljarð króna vegna kaupaaukakerfis síns á síðustu tveimur árum. Íslandsbanki gjaldfærði 258 milljónir króna í fyrra, eða 17 milljónum krónum meira en árið 2013. Samtals nema kaupaukar til starfsmanna bankans því rúmum hálfum milljarði króna á tveimur árum.

Á meðan banksterarnir geta rakað til sín tugum milljóna í bónusa, (við munum jú eftir banksterabónusunum frá því á árunum fyrir hrun, ábyrgðin var svo mikil, eða þannig) þurfa aldraðir og öryrkjar að velta hverri krónu sem þeir fá, minnst fimm sinnum og gera upp við sig hvort verður keypt, lyfin eða matur.

Það er ógeðslegt þjóðfélag sem leyfir svona framkomu og hegðun.

Hits: 0

260 þúsund eðlilegt leiguverð

260 þúsund eðlilegt leiguverð fyrir 90 fermetra öryggisíbúð segir framkvæmdastjóri

Kristín og Alvar: Myndir/geirix - Pressphotos.bizKristín og Alvar: Myndir/geirix – Pressphotos.biz

„Það er ekkert óeðlilegt við leiguverðið á öryggisíbúðunum okkar. Við leigjum út 100 íbúðir og ég veit ekki til þess að nokkur hafi kvartað. Þetta segir Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs á hjúkrunarheimilinu Eir.

Líkt og Pressan hefur greint frá þá þurfa öldruð hjón, Alvar og Kristín, sem eru búsett í Reykjavík, að borga samtals 360 þúsund á mánuði til að vera nálægt hvort öðru. Alvar leigir öryggisíbúð á 260 þúsund krónur á mánuði og Kristín borgar 103 þúsund á mánuði fyrir pláss á hjúkrunarheimilinu Eir.

Þau geta ekki búið saman sökum þess að þau eru með ólíkt færni- og heilsumat. Svimandi há húsaleiga og gjald fyrir öryggisþjónustu, hjúkrun og ummönnun mun því éta ævisparnaðinn þeirra upp á örfáum árum.

Vöntun á plássi

„Það vantar töluvert fleiri hjúkrunarheimilispláss,“ segir Birna Kr. Svavarsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar á Hjúkrunarheimilinu Eir og bætir við að það sé mjög dapurlegt að fólk geti ekki haldist í hendur á gamalsaldri þó annað sé veikt.

Birna er jafnframt sammála því að það vanti betri úrræði fyrir fólk sem er í sömu sporum og Alvar og Kristín.

Samkvæmt reglugerð þá getur einstaklingur ekki innskrifast á hjúkrunarheimili nema að undangengnu færi- og heilsufarsmati sem segir að umræddur einstaklingur þarfnist hjúkrunar og ummönnunar allan sólarhringinn, auk læknisþjónustu, sjúkraþjálfunar, iðjuþjálfunar, matarþjónustu, lyfjaþjónustu, félagsstarfsemi og fleira.

Hjón geta þannig búið á hjúkrunarheimili ef þau eru bæði með færni og heilsufarsmat. Eins og staðan er í dag þá er töluverður biðlisti á LSH af öldruðum einstaklingum sem eru komnir með færni og heilsufarsmat en þurfa að bíða, annað hvort heima eða á Vífilstöðum, eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili þar sem mikil vöntun er á plássum.

Birna segir þó lausnina, til dæmis í máli Alvars og Kristínar, alls ekki þá að hann innskrifist á hjúkrunarheimili.

„Það á enginn að vera á Landspítalanum sem þarf þess ekki.“

Hún leggur þó mikla áherslu á að vöntun sé á fleiri hjúkrunarrýmum, ekki síst einbýli.  Birnu þykir dapurlegt að aldrað fólk sem er veikt þurfi að búa í sambýli með ókunnugum einstaklingi.

Líkt og áður hefur komið fram kostar það Alvar tæplega 260 þusund krónur á mánuði  að leigja 90 fermetra öryggisíbúð. Auk þess greiðir Kristín 103 þúsund krónur á mánuði fyrir herbergi, sem hún deilir með annarri konu, á hjúkrunarheimilinu Eir.

Eðlilegt leiguverð fyrir öryggisíbúð

Sæmundur Runólfsson segir ekkert óeðlilegt við leiguverðið á öryggisíbúðum í eigu Eirar. Hann bendir á að Alvar hefði getað valið tveggja herbergja íbúð sem er tæplega 70 þúsund krónum ódýrari, á mánuði. Alvar hafi kosið að taka dýrari íbúðina sem er 90 fermetrar og með tveimur svefnherbergjum.

Rebekka dóttir Alvars segir að vissulega hafi föður sínum staðið önnur íbúð til boða. Hún hafi verið 15 þúsund krónum ódýrari en sú sem Alvar kaus að taka á leigu en ekki 70 þúsund krónum líkt og Sæmundur segir. Rebekka segir að íbúðin sem Sæmundur vísar til sé nú þegar í útleigu svo það sé fráleitt að tala um hana í þessu samhengi.

Sæmundur segir einnig að ekki sé hægt að bera öryggisíbúð saman við almenna leiguíbúð. Öryggisíbúðunum fylgi ákveðið kerfi og ýmiss þjónusta á borð við aðgang að mötuneyti. Það skal þó tekið fram að greiða þarf aukalega fyrir mat í mötuneytinu.

Hann ítrekar að leiguverðið sé ekki sett í þeim tilgangi að Eir græði á íbúðunum heldur út frá þeirri forsendu að þær standi undir kostnaði.

Hits: 0

Hverju lofaði Bjarni Benediktsson lífeyrisþegum 2013?

Hverju lofaði Bjarni Benediktsson lífeyrisþegum 2013?

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013 var eftirfarandi samþykkt:Ellilífeyrir verði leiðréttur STRAX  til samanburðar við þær hækkanir,sem orðið hafa á LÆGSTU LAUNUM frá 2009.Bjarni Benediktsson var þá formaður Sjálfstæðisflokksins.

Auk þess sendi Bjarni Benediktsson bréf til eldri borgara þetta sama ár,2013 fyrir kosningar,og sagði: Við ætlum að afnema tekjutengingar almannatrygginga: M.ö.o: Hætta að skerða lífeyri aldraðra hjá TR vegna tekna af atvinnu og fjármunum og vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Bjarni Benediktsson er nú fjármálaráðherra og því í kjöraðstöðu til þess að efna bæði þessi loforð,þ.e. frá landsfundi og bréfinu,sem hann sendi út.En hvorugt loforðið hefur verið efnt! Það hefur ekkert verið gert til þess að efna  þessi loforð.

Þegar spurt er um efndir er svarað með útúrsnúningum og t.d. sagt,að frítekjumark vegna atvinnutekna hafi verið rýmkað  svo og grunnlífeyrir þeirra,sem hafa góðan lífeyrissjóð.Slík svör duga ekki.

Aldraðir vilja fullar efndir á stóru kosningaloforðunum,leiðréttingu lífeyris vegna kjaragliðnunar og afnám tekjutenginga eins og lofað var. Verði það ekki gert á stjórnin að segja af sér.Þessi loforð komu henni til valda.Þetta eru stærstu loforðin.

Björgvin Guðmundsson.

www.gudmundsson.net

Hits: 1

Þá verð ég að fara á bæinn

Þá verð ég að fara á bæinn

Sólveig Adamsdóttir starfar tímabundið sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla. Það finnst henni dásamleg vinna

solveig

„Mér var sagt upp störfum sem móttökuritari hjá Atvinnurþróunarélagi Eyjafjarðar þegar ég var 62 ára nú er ég rúmlega 64 ára og ekki enn komin í fasta vinnu,“ segir Sólveig Adamsdóttir á Akureyri. Um þessar mundir  starfar Sólveig í afleysingum sem stuðningsfulltrúi í Giljaskóla, þá stöðu fékk hún um miðjan október og er ráðin þangað til sá sem hún leysir af snýr til baka úr veikindaleyfi. Hvað þá tekur við er ekki ljóst.

Farið að ganga á bótaréttinn

Sólveig segir að staða hennar hjá Atvinnuþróunarfélaginu hafi verið lögð niður haustið 2012. Við því hafi svo sem ekkert verið að segja, það hafi ekkert haft með hennar persónu eða frammistöðu að gera. Stjórn félagsins hafi ákveðið að gera breytingar á starfseminni og þetta hafi verið niðurstaðan. Hún segir að hún hafi fengið sex mánaða uppsagnafrest greiddan, auk orlofs og uppsafnaðs orlofs. Hún hafi því ekki farið atvinnuleysisbætur fyrr en  haustið 2013 og hafi verið á bótum þangað til í nú haust. Það sé því verulega farið að ganga á hennar bótarétt.

Hefur sótt um tugi starfa

Sólveig segir að hún hafi sótt um tugi starfa eftir að hún missti vinnuna en ekki fengið neitt. Hún segist hafa kveikt á perunni hvað væri í veginum þegar hún sótti um vinnu við bókhald hjá Akureyrarbæ. Bærinn hafi skrifað henni bréf  og tilgreint að umsækjendur væru á milli 30 og 40. Í  bréfinu hafi komið fram að þeir 5 hafi verið kallaðir í viðtal sem hafi haft mesta reynslu í bókhaldi.  Sólveig segir að sér hafi brugðið nokkuð við að lesa þetta og ákveðið að hringja í þann sem hafði með ráðninguna að gera og spyrja hvers vegna hún hafi ekki verið kölluð í viðtal þar sem hún hafi unnið við bókhald og launaútreikninga í  30 og  40 ár.  Þá hafi henni verið sagt að hún væri ekki með stúdentspróf. „Þá áttaði ég mig á því að það var kennitalan mín sem stóð í veginum en ekki skortur á þekkingu og reynslu,“ segir Sólveig og bætir við að stúdentsprófið hafi verið fyrirsláttur, það virðist bara vera þannig að fólk á hennar aldri fái ekki vinnu nema í gegnum kunningsskap.

Einkennilegt að hækka lífeyrisaldurinn

Ef að Sólveig fær ekki fasta stöðu þá er ekkert annað fyrir hana að gera en fara aftur á atvinnuleysisbætur en hún á ekki  nema nokkra mánuði eftir af bótatímanum áður en hún dettur út af skránni.„Þá verð ég að leita til sveitarfélagsins um framfærslu þangað til ég kemst á eftirlaun. Svo eru þeir að tala um að hækka lífeyrisaldurinn, sem er afar einkennilegt í ljósi þess hversu illa eldra fólki gengur að fá störf.  Stundum finnast manni þessir þingmenn „dáldið“ vitlausir,“ segir Sólveig og bætir við að það sé verið að ýta vandanum yfir á sveitarfélögin. „Þá er maður kominn á bæinn og það þótti nú ekki fínt þegar ég var ung,“ segir hún að lokum.

 

Hits: 0

Nýtt ofurfæði: Poppkorn er hollara en margt grænmeti og ávextir

07. okt. 2014 – 15:30

Nýtt ofurfæði: Poppkorn er hollara en margt grænmeti og ávextir

Kjötbollur með poppkorni, poppkornsgratín eða poppkorn með mjólk í morgunmat. Hljómar kannski ekki lystugt en hugsanlega er þetta fæðusamsetning framtíðarinnar því nú hafa vísindamenn sýnt fram á að poppkorn inniheldur meira af hollum og gagnlegum andoxunarefnum en margt af því grænmeti og ávöxtum sem heilsufríkin ráðleggja okkur að borða.

Poppkorn er einfaldlega óunnið heilkorn og einn skammtur af því getur innihaldið 70 prósent af ráðlögðum dagskammti af heilkorni auk þess sem mikið er af andoxunarefnum í poppkorni að sögn Joe Vinson, prófessors, sem stýrði rannsókninni sem var gerð hjá University of Scranton.

Í maísbaununum er mjög mikið af pólýfenól en það kom vísindamönnunum mjög á óvart. Pólýfenól er einnig að finna í rauðvíni, humlum og ávöxtum en það er andoxunarefni sem getur lækkað magn kólestróls í blóði og einnig haldið aftur af sumum tegundum krabbameins.

Pólýfenól er einnig í ávöxtum en af því að ávextir eru að stórum hluta vökvi glatar pólýfenólið eiginleikum sínum. Maískorn, einnig poppuð, innihalda aðeins 4 prósent vatn og það gerir poppkorn að nýju ofurfæði að sögn Svenske Dagbladet. Mesta innihald pólýfenóls er í skelinni, þessari sem festist gjarnan í tönnum, en ekki hvíta hlutanum sem flestum finnast bestir.

En það er auðvitað ekki góð hugmynd að drekkja poppinu í salti, smjöri eða olíu, þá er hollustan fokin út í veður og vind.

Hits: 0

1 2