Óánægja með að matsalnum verði lokað um helgar

Óánægja með að matsalnum verði lokað um helgar

„Ég legg til að við förum í verkfall og látum ekki sjá okkur hér“, sagði reiður íbúi í Eirborgum í Grafarvogi á fundi þar sem fulltrúar frá velferðarsviði borgarinnar greindu frá því að hætt yrði að bjóða uppá mat í matsal félagsmiðstöðvarinnar Borga um helgar. Þess í stað yrði fólki boðið að fá heimsendan mat á laugardögum og sunnudögum. Yfir 100 manns hafa skrifað undir mótmæli gegn þessum breytingum. Undirskriftarlistinn hefur verið afhentur borgarráði.

70 til 100 manns í mat

Eirborgir eru öryggisíbúðir fyrir eldra fólk, sem eru reknar af hjúkrunarheimilinu Eir. Reykjavíkurborg rekur hins vegar félagsmiðstöðina Borgir sem er í áföstu húsi við Eirborgir. Þar er matsalur þar sem boðið hefur verið uppá mat í hádeginu alla daga vikunnar og þar borða um 70 manns á hverjum degi og stundum fleiri.

Átti ekki að vera opið í matsal um helgar

Það stóð ekki til að vera með mat um helgar á Borgum þegar aðstaðan þar var byggð upp enda hefur það ekki tíðkast í öðrum félagsmiðstöðvum sem Reykjavíkurborg rekur.  Almennt er miðað við að matsalir séu opnir alla virka daga, en að fólk geti fengið sendan mat heim um helgar. Undantekning frá þessu er félagsmiðstöðin á Vitatorgi, þar sem maturinn er eldaður. Þangað geta allir eftirlaunamenn komið og keypt sér mat um helgar. Á örfáum öðrum stöðum þar sem menn þurfa mikla umönnun, hefur fólk fengið mat í í matsal um helgar. Þrátt fyrir þetta var ráðist í að hafa matsalinn í Borgum opinn um helgar.

Fjármagn fylgdi ekki með

Það var Ingibjörg Sigurþórsdóttir framkvæmdastjóri Miðgarðs sem greindi frá því á fundinum með íbúum Borga að velferðarráð hefði samþykkt að hætta með sameiginlegan mat í matsalnum um helgar, en bjóða þess í stað uppá heimsendan mat. Hún sagði að þó það hefði verið ákveðið að bjóða uppá mat í matsalnum á sínum tíma, hefði aldrei verið veitt til þess fjármagni. Fjárhagsstaða borgarinnar væri ekki góð frekar en hjá öðrum sveitarfélögum og þess vegna væri ekki hægt að halda þessari þjónustu áfram. Hún sagði að breytingar væru alltaf erfiðar og það væri mikilvægt að koma saman og ræða þær.

Féllu í grýttan jarðveg

Fundurinn í Borgum

Fundurinn í Borgum

Breytingarnar féllu í grýttan jarðveg hjá íbúum Eirborga og Ásta Jónsdóttir, benti á að þegar byrjað hefði verið með mat í salnum um helgar, hefðu engin tímamörk verið sett. „Borgin er því að ganga á bak orða sinna og ef hún getur ekki rekið þetta ætti hún að láta öðrum það eftir“, sagði hún. Hún sagði jafnframt að maturinn væri félagslegt atriði og heimsendingarþjónusta gæti ekki komið í staðinn fyrir hann. „Margir eru á áttræðis, níræðis og tíræðisaldri og geta ekki annast þetta. Ég veit að þá er bent á aðstandendur til aðstoðar, en sumir eiga fáa aðstandendur og aðrir enga“, sagði hún.

Fá aðstoð með heimsenda matinn

Ingibjörg greindi frá því að allir sem ættu erfitt með að taka á móti heimsenda matnum, fengju aðstoð við það. Þeir ættu að hafa samband við matsfulltrúa sem færi í gegnum ferlið með þeim. Hún sagði líka í bígerð að koma upp föstum hittingi um helgar og það væru einnig messur í Borgum á sunnudögum þar sem fólk kæmi saman. „Við gerum ekki lítið úr því að þetta er góður félagsskapur í kringum matinn, en reynum að lágmarka skaðann eins og hægt er“, sagði hún.

6 milljónir sparast

Spurt var um hversu mikið myndi sparast á því að senda matinn heim í stað þess að framreiða hann í matsal. Fjármálastjóri Miðgarðs sagði að þar sem fé hefði ekki fylgt matnum um helgar, hefði þurft að spara annars staðar til að halda honum úti. Sá rammi sem Miðgarður hefði fengið væri að bjóða uppá matarþjónustu í sal 5 daga vikunnar og með því að breyta þessu um helgar myndu sparast hátt í 6 milljónir króna. „Eins og tímarnir eru, eru allir að reyna að ná sínum markmiðum í fjármálunum. Við erum einnig að samræma þjónustuna, þannig að ekki sé verið að mismuna fólki, eftir því hvar það býr“, sagði hann.

Hvað kosta plastumbúðirnar?

„Hvað kostar að bera þetta fram í plastumbúðum og hefur einhver reiknað út mengunina sem af því hlýst að keyra matinn heim? “ spurði einn íbúanna, fyrrverandi hússtjórnarkennari. Sjálf sagðist hún aldrei myndu bera matinn fram í plasti, það væri óboðlegt. Henni var þakkað fyrir góða ábendingu og umræða spannst um umhverfismál sem þessu tengjast.

Ingibjörg sagðist í lok fundarins óska þess að þetta gengi sem best fyrir sig og að hún myndi gera sitt besta til að svo yrði. Breytingarnar eiga að taka gildi 1. Janúar 2016.

 

Hits: 0

Bjarga sjálfboðaliðar helgarmatnum?

Bjarga sjálfboðaliðar helgarmatnum?

„Ákvörðun velferðarráðs um að hætta um áramót með mat um helgar í matsal Borga í Grafarvogi, stendur óhögguð“, segir Ilmur Kristjánsdóttir formaður ráðsins, enda hafi hún verið samþykkt samhljóða í velferðarráði, einkum á þeim forsendum að þetta væri þjónusta sem væri ekki í boði annars staðar í borginni. „En málið þarf ekki að stranda þar“, segir Ilmur „heldur ætlum við að leita lausna sem auka lífsgæði fólks, rjúfa félagslega einangrun og eru hagkvæmar. Þess vegna viljum við fá til liðs við okkur nýstofnað öldungaráð og jafnvel félag eldri borgara“.

Lifðu núna sagði frá fundinum sem haldinn var í nóvember, þegar fólki var kynnt þessi ákvörðun velferðarráðs. Gert er ráð fyrir að sex milljónir króna sparist, við það að hætta með helgarmatinn í matsalnum og senda fólki þess í stað matinn heim. Sjá greininahér.

Sjá ekki hvað sparast

Ásta Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur og íbúi í Eirborgum, segir málið í biðstöðu. Hún segir að heimsending matar leysi ekki vandann og spari heldur enga peninga, eða þau sjái ekki hvað sparist. Sérstaklega ekki þar sem þessu þurfi að fylgja fólk sem kemur til að aðstoða íbúa við að útbúa heimsenda matinn heima hjá sér, eins og boðið sé uppá. Hún segir að maturinn verði hækkaður um áramót og íbúarnir hafi rætt það í sinn hóp, hvort ekki megi hafa verðið eitthvað hærra um helgar, ef það gæti orðið til að leysa málið.

Sameiginlegur fundur í febrúar

Velferðarráð fjallaði um málið á fundi fyrir jólin og hefur óskað eftir ítarlegu yfirliti yfir allt tómstundaframboð borgarinnar, starfsmannahald og kostnað við hverja starfseiningu. Í bókun sem gerð var á fundi ráðsins kemur fram að auk þess er óskað eftir heildaryfirliti yfir þá matarþjónustu sem borgin heldur úti. Í bókuninni segir orðrétt.

Einnig óskar ráðið eftir að sviðið skoði möguleika á notkun sjálfboðaliða í matarþjónustunni. Velferðarráð mun taka upp málið að nýju þegar umbeðin gögn liggja fyrir. Það er ósk ráðsins að ræða bæði opið félagsstarf og matarþjónustu á sameiginlegum fundi velferðarráðs og öldungarráðs sem haldin verður í febrúar nk.

Hits: 0

Verið að níðast á öldruðum og öryrkjum

Verið að níðast á öldruðum og öryrkjum

 

SKOÐUN

09:14 16. DESEMBER 2015

Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
Björgvin Guðmundsson, formaður kjaranefndar Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni.
BJÖRGVIN GUÐMUNDSSON SKRIFAR

Svo virðist sem ríkisstjórn og Alþingi ætli að bregðast öldruðum algerlega á þessu ári. Við afgreiðslu fjáraukalaga fyrir 2015 var tillaga um kjarabætur lífeyrisþega felld. Sýnt hefur verið fram á með mörgum dæmum, að ekki er unnt að lifa af lægsta lífeyri aldraðra frá TR. Þessi lífeyrir dugar ekki fyrir framfærslukostnaði út mánuðinn. Lyf eða læknishjálp mæta því afgangi. Og stundum eru matarkaup látin sitja á hakanum. Þetta er mjög gróft mannréttindabrot og stríðir gegn 76. grein stjórnarskrárinnar. En þetta virðist ekki skipta meirihluta Alþingis neinu máli. Ríkisstjórnin hreyfir sig ekki í þessu máli og ekki meirihluti Alþingis heldur. Til þess að kóróna ranglætið og misréttið í þjóðfélaginu gerist það nú fyrir skömmu, að hálaunamenn, ráðherrar, alþingismenn og embættismenn ríkisins fá mjög miklar kjarabætur, ekki frá 1. janúar n.k. eins og eldri borgarar og ekki frá 1. maí sl. eins og verkafólk, nei frá 1. mars sl.! Ráðherrar og alþingismenn hafa verið taldir svo illa haldnir, að þeir yrðu að fá góða summu í vasann strax! Ráðherrarnir fengu rúmar 900 þúsund greiddar nú þegar! En um leið og þeir taka við þessum upphæðum segja þeir nei við aldraða og öryrkja!

Aldraðir fái sömu hækkun og verkafólk og frá sama tíma
Þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fyrir Alþingi til annarrar umræðu, var ekki að sjá í því neinar lagfæringar á kjörum aldraðra og öryrkja umfram þá hungurlús, sem var boðuð í upphafi og á ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári. Það er ófrávíkjanleg krafa kjaranefndar eldri borgara (og LEB) að eldri borgarar fái nákvæmlega jafn mikla hækkun á sínum lífeyri og verkafólk fékk á sínum launum (14,5%).Og það hefur verið ófrávíkjanleg krafa eldri borgara, að aldraðir fengju þessa hækkun frá sama tíma og verkafólk, þ.e. frá 1. maí sl. Nú væri réttlætismál, að aldraðir fengju þessa hækkun frá 1. mars eins og ráðherrar, alþingismenn og embættismenn. Það er meiri þörf á að hækkun á lífeyri aldraðra og öryrkja frá TR gildi frá 1. mars heldur en hækkun á launum þessara hátekjumanna.

Hækkun lífeyris ekki í samræmi við launaþróun
Ríkisstjórnin boðaði 9,4% hækkun á lífeyri aldraðra, sem tæki gildi næsta ár. Þetta eru rúmar 10 þús. kr á mánuði eftir skatt. Þessi hungurlús er það, sem forsætisráðherra kallar mestu hækkun á lífeyri aldraðra og öryrkja í sögunni! Á sama tíma hækka laun ráðherranna um meira en 100 þúsund krónur á mánuð og afturvirkt frá 1. mars eða um meira en 900 þúsund kr. strax. Ríkisstjórninni er gjarnt að tala um met. Þetta er áreiðanlega met í ranglæti og misrétti. Á þessu ári hafa laun margra stétta hækkað óvenju mikið. Meðaltalshækkun á þessu ári hefur verið í kringum 14% en einstaka stéttir hafa hækkað um 18%, aðrar um 25% og fiskvinnslufólk, sem er að byrja störf, hækkar um 30%. Samkvæmt lögum á lífeyrir að taka mið af launaþróun. Það er alveg ljóst, að það er verið að brjóta lögin með því að ákvarða hækkun lífeyris langt fyrir neðan hækkun launa flestra stétta. Það er verið að níðast á öldruðum og öryrkjum.

Hits: 0

Jólagjöfin í ár

Jólagjöfin í ár

 

SKOÐUN

07:00 12. DESEMBER 2015

Ellert B. Schram í stjórn Félags eldri borgara
Ellert B. Schram í stjórn Félags eldri borgara
ELLERT B. SCHRAM SKRIFAR

Meirihluti þingmanna felldi fyrr í vikunni tillögu stjórnarandstöðunnar um hækkun lífeyrisbóta til aldraðra. Raunar gekk tillagan, sem felld var, út á það að hækkun bótanna næði frá þeim tíma í vor, sem launþegar sömdu um og fengu, auk þess sem kjararáð hækkaði laun þingmanna og ráðherra átta mánuði aftur fyrir sig eins og allur þorri vinnumarkaðarins fékk.

Rökstuðningur meirihlutans var í aðalatriðum sá, að vel hafi verið gert við ellilífeyrisþega, frá því að núverandi ríkisstjórn tók við, að lög kveði á um, hvernig reiknaðar skulu út tryggingabætur og ellilífeyrir hafi hækkað um 3%, um síðustu áramót, umfram það sem aðrir fengu.

Þetta er löðurmannlegur málflutningur, fyrirsláttur og afneitun gagnvart þeirri einföldu staðreynd, að samfélagið er með þessari afgreiðslu Alþingis að horfast í augu við þá niðurstöðu, að eldra fólk eigi ekki annað skilið en að glíma við fátækt.
Upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu og Almannatryggingum hafa leitt í ljós að fjögur þúsund eldri borgarar hafa minna en tvö hundruð þúsund krónur á mánuði til að framfleyta sér. Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að ellilífeyrir hækki um 9,6% frá næstu áramótum, ca tuttugu þúsund krónur, mínus skattur. Við það stendur. Við þá skömm stendur.

Þegar Almannatryggingar voru stofnaðar, var tilgangurinn sá, að samfélagið rétti öldruðu fólki hjálparhönd til að halda reisn sinni og geta lifað mannsæmandi lífi, þegar það væri ekki lengur á vinnumarkaði. Hugsunin var sú að útrýma fátækt hjá fólki, sem hefði fram að því lagt sinn skerf til þjóðfélagsins. Ætti það inni og verðskuldaði aðstoð. Þetta var ekki ölmusa, þetta var endurgjald, þakkir og viðurkenning samfélagsins um tilvist ellinnar.

Ég leyfi mér enn að trúa því að það sé ekki mannvonska sem veldur því að meirihluti Alþingis fellir tillögu um útborgun lífeyrisbóta. Það er hins vegar pólitík af verstu sort. Á bak við þetta er fólk sem hefur allt sitt vit úr Excel-skjölum, prósentureikningi og pólitískum samanburði. Og svo kemur hjörðin á eftir og réttir upp hendurnar þegar henni er skipað. Það hafði enginn alþingismaður úr stjórnarliðinu manndóm í sér til að greiða atkvæði með réttlætinu. Þetta er sorgleg staðreynd, hinn aumi blettur stjórnmálanna. Lýsandi dæmi um ósjálfbjarga og hollustusjúka meðreiðarsveina valdsins. Meira gæti ég sagt.

Þessi hörmulega epísóda er áminning til okkar allra, á hvaða aldri sem við erum, að jafnrétti og jöfnuður, samkennd og mannúð eiga enn erindi inn á hinn pólitíska vettvang. Og þar er verk að vinna.

Hits: 0