Vilja þjóðarsátt um kjör eldri borgara og öryrkja

Formaður fjárlaganefndar vill aðstoða þá verst stöddu

Guðni Einarsson gudni@mbl.is

„Við getum ekki horft upp á það að einhverjir eigi vart til hnífs og skeið- ar árið 2016,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis. Hún kvaðst hafa tekið málefni eldri borgara og öryrkja upp á þingflokksfundi Framsóknarflokksins á mánudaginn var. „Nú verðum við á einhvern hátt að finna leiðir til að koma þessum skilgreinda 9.500 manna hópi sem verst stendur til að- stoðar,“ sagði Vigdís. Hún sagðist hafa verið að hugsa um þessi mál síð- an í fjárlagagerðinni og telur hún að nokkrar leiðir geti komið til greina. Áskorun til landsfeðra Fjölmennur fundur Íslendinga sem staddir voru á Kanaríeyjum fyrr í mánuðinum samþykkti áskorun til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, um að þeir beittu sér fyrir því „að þjóðarsátt verði komið á í málefnum eldri borgara og öryrkja á árinu 2016“. Eins mun hafa komið fram á fundinum að eldra fólki þætti ekkert jafn mikilvægt og að höggvið yrði á hnúta skerðinga á bótum og réttindum. Vigdís var á fundinum þegar áskorunin var borin upp og sam- þykkt með lófataki. Viku áður hafði hún haldið ræðu á vikulegum fundi Íslendinga á Sportbarnum á Gran Canaria. Þar voru rúmlega 100 manns. Finna þarf leiðir til lausnar „Þarna er starfandi Framsóknarfélag í „syðstakjördæmi“. Úr því að ég var þarna stödd var ég beðin að tala á reglubundnum laugardagsfundi,“ sagði Vigdís. „Landsmálin voru rædd og kjör eldri borgara og öryrkja. Ég fór yfir tölur sem fjárlaganefnd fékk rétt fyrir jólin.“ Vigdís sagði að samkvæmt þeim væri staðan erfið hjá um 4.500 eldri borgurum og um 5.000 öryrkjum. „Ég sagði að það þyrfti að koma þessum hópi á einhvern hátt til hjálpar. Það er verkefni stjórnmálanna nú fram á vor að finna út úr því hvaða leið er best í samvinnu við fjármálaráð- herra.“ Vigdís kvaðst einnig hafa farið yfir 9,7% hækkun almannatrygginga á fjárlögum 2016. „Tæplega 10% hækkun á einu ári er mjög góður árangur að mínu mati. Enda byggist hún á 69. grein almannatryggingalaga sem er í raun kjaradómur þessara hópa. Þar er uppskrift að því hvernig hækkanir til þessara hópa eru fundnar út.“

 

Hækkun bóta » Í 69. grein laga um almannatryggingar (100/2007) segir: » „Bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs.“

Hits: 0

Vigdís greiddi atkvæði gegn kjarabótum aldraðra og öryrkja.Kveðst nú vera að skipta um skoðun!

Vigdís greiddi atkvæði gegn kjarabótum aldraðra og öryrkja.Kveðst nú vera að skipta um skoðun!

 

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar var í viðtali við Bylgjuna um málefni aldraðra.Þetta var kostulegt viðtal. Eftir að fjárlaganefnd og meirihluti alþingis er nýbúinn að fella allar tillögur um afturvirkar kjarabætur til aldraðra og öryrkja eins og aðrir hafa fengið og felldar hafa verið allar tillögur um, að lífeyrisþegar fengju sambærilegar hækkanir og verkafólk segir Vigdís að hún vilji bæta kjör þeirra lífeyrisþega,sem verst hafa kjörin!Ég tek ekkert mark á þessu.Þetta er marklaust orðagjálfur.Vigdís hafði tækifæri til þess að veita þeim verst stöddu meðal aldraðra og öryrkja kjarabætur við afgreiðslu fjárlaga í desember. Hún greiddi atkvæði gegn slíkum tillögum þá.Afsökun hennar um,að hún hafi ekki vitað hve margir lífeyrisþegar væru illa staddir er marklaus.Hún væri ekki að vinna vinnuna sína,ef hún kynnti sér ekki málin áður en þau kæmu til afgreiðslu.

Síðan dásamaði hún 9,7% hækkun lífeyris,sem lífeyrisþegar fengu 8 mánuðum seinna en verkafólk fékk hækkun og 10 mánuðum seinna en ráðherrar fengu 100 þús króna hækkun hver.Hún hefði dásamað þessa hækkun jafnmikið þó hún hefði verið 5%!Sannleikurinn er sá,að það er Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra,sem ákveður hækkun lífeyrisþega og sker hana niður langt niður fyrir launahækkanir annarra (14,5%-30% hjá öðrum).Framsókn og þar með Vigdís dansar með. Framsóknarflokkurinn er ekki lengur neinn félagshyggjuflokkur.Ef svo væri hefði flokkurinn ekki brugðist öldruðum og öryrkjum gersamlega.

Björgvin Guðmundsson

Hits: 0

Lífeyrir aldraðra og öryrkja á að vera skattfrjáls!

Ríkið skammtar lífeyrisþegum algera hungurlús í lífeyri.En tekur síðan hluta af lífeyrinum til baka í sköttum! Hvaða vit er í því? Auðvitað á lífeyrir aldraðra og öryrkja að vera skattfrjáls.Lífeyrir aldraðra einhleypinga er 207 þúsund krónur á mánuði eftir að ríkið er búið að taka 40 þúsund krónur af lífeyrinum.Ríkið skammtar með annarri hendinni en tekur til baka með hinni?

Eldri borgarar hafa barist fyrir því undanfarin ár,að skattleysismörkin væru hækkuð myndarlega.Það hefur verið ályktað um það á aðalfundum Félags eldri borgara í Reykjavík ítrekað og áskoranir sendar stjórnvöldum.Skattleysismörkin eru fyrir árið 2016 krónur 145.659.Það er alltof lágt.Það þarf að hækka þau i rúmlega 200 þúsund krónur.Hækkun skattleysismarkanna væri góð kjarabót bæði fyrir lífeyrisþega og lágtekjufólk.

Björgvin Guðmundsson

Hits: 0

LEIÐTOGARNIR SVIKU LíFEYRISÞEGA

LEIÐTOGARNIR SVIKU LíFEYRISÞEGA
Hvaða leyfi hafa stjórnarherrarnir,Sigmundur Davíð og Bjarni til þess að halda kjörum lífeyrisþega niðri?Fengu þeir eitthvað umboð til þess í síðustu kosningum að hlunnfara aldraða og öryrkja á sama tíma og allir aðrir í þjóðfêlaginu fá miklar kjarabætur.Var það ekki þveröfugt? Sögðust þeir ekki ætla að stórbæta kjör lífeyrisþega? Ég man ekki betur. Þessir leiðtogar eru því að svíkja aldraða og öryrkja.

Það er alvarlegt mál þegar stjórnmálamenn svíkja kjósendur.Og það er enn alvarlegra þegar þessir kjósendur eru eldri borgarar. Bjarni Benediktsson skrifaði eldri borgurum bréf fyrir síðustu alþingiskosningar og lofaði, að hann mundi afnema allar tekjutengingar í kerfi almannatrygginga. Hvað þýddi það? Jú,það þýddi það, að hann ætlaði að hætta að skerða tryggingabætur TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóði.Það hefði verið mikil kjarabót,ef hann hefði staðið við það.En það hvarfaði ekki að honum að efna þetta kosningaloforð. Bjarni sveik loforðið!
Bjarni lofaði einnig í umræddu bréfi til eldri borgara að hætta að skerða tryggingabætur hjá TR vegna fjármagnstekna af innistæðum
í bönkum. Það er einnig mikið hagsmunamál eldri borgara. Ef eldri borgari minnkar við sig íbúð sína,kaupir aðra ódýrari og leggur mismuninn í banka er honum refsað grimmilega fyrir það. Tryggingastofnun hrifsar þá drjúgan hluta af lífeyri hans hjá TR .Bjarni lofaði því í kosningunum að afnema þessa skerðingu en hann sveik það loforð líka.(Síðan hefur ríkisstjórnin aftur lofað því í stjórnarsáttmálanum að draga úr skerðingu tryggingabóta vegna fjármagnstekna en þeir þeir Bjarni og Sigmundur Davíð hafavikið það.) Bjarni Benediktsson lofaði einnig að afnema alla skerðingu tryggingabóta vegna atvinnutekna.Hann ætlaði ekki aðeins að rýmka frítekjumarkið. Nei hann lofaði að gefa ótakmarkaða heimild fyrir atvinnutekjum án þess að þær skertu tryggingabætur. En hann sveik þetta kosningaloforð líka!

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 2013 var eftirfarandi samþykkt: Ellilífeyrir verði leiðréttur strax til samanburðar við þær hækkanir,sem orðið hafa á lægstu launum frá 2009.Þarna er engin tæpitunga töluð. Því er lofað að ellilífeyrir verði leiðréttur vegna launahækkana, ekki seinna heldur strax. En núna 2 1/2 ári seinna er ekkert farið að gera í að efna þetta loforð.Og það er ekkert óljóst við hvað á að miða í leiðréttingunni.Það á að miða við hækkun lægstu launa.
Bjarni Benediktsson var formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar þetta var samþykkt 2013 og hann er formaður flokksins ennþá. Hann ber því fulla ábyrgð á þessu loforði og efndum þess.M.ö.o. Bjarni lofaði að hækka lífeyri aldraðra til samræmis við þær hækkanir,sem orðið hefðu á lægstu launum 2009-2013. En hann hefur ekki aðeins svikið það heldur einnig bætt um betur og haldið kjörum aldraðra og öryrkja niðri á sl. ári, þegar allar aðrar stéttir hafa fengið miklar launahækkanir.
Bjarni lét sem fjármálaráðherra framhaldsskólakennara fá 44% launahækkun!,Hann lét lækna fá 40 % kauphækkun og þannig mætti áfram telja.Ríkið ruddi brautina fyrir gífurlegum launahækkunum. En þegar kom að öldruðum og öryrkjum sagði Bjarni nei.En þó voru það einmitt lífeyrisþegar,sem Bjarni og raunar Sigmundur einnig lofuðu að bæta kjörin mest hjá i þingkosningunum 2013.

Verkafòlk fékk 14,5% hækkun lágmarkslauna 1.mai 2015 og ráðherrarnir sjálfir (þingmenn og embættismenn) fengu mikla launahækkun frá 1.mars 2015. (Yfir 100 þúsund kr á mánuði).En þeir Bjarni og Sigmundur Davíð ákváðu,að aldraðir og öryrkjar skyldu ekki fá neina hækkun í 8 mánuði eftir almennar launahækkanir vorsins 2015.Þeir skyldu fyrst fá hækkun 2016 og þá miklu minni hækkun en launþegar eða 9,7% hækkun í stað 14,5%.Með þessari ákvörðun var verið að stórskerða kjör lífeyrisþega og í rauninni að framkvæma nýja kjaragliðnun.Þannig sviku þeir leiðtogarnir aldraða og öryrkja.

Björgvin Guðmundsson
Formaður kjaranefndar
Félags eldri borgara í Rvk
Og nágrennni

Hits: 0

Uppnám vegna matarleysis um helgar

Uppnám vegna matarleysis um helgar

 

INNLENT

07:00 14. JANÚAR 2016

Jón Gunnar segir hádegismatinn vera mikilvægan þátt í rútínu íbúanna og rjúfa félagslega einangrun.
Jón Gunnar segir hádegismatinn vera mikilvægan þátt í rútínu íbúanna og rjúfa félagslega einangrun.FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Borgin rekur mötuneyti í Eirborgum þar sem öryggisíbúðir eru fyrir aldraða. Þar er framreiddur heitur matur í hádeginu en nú um áramótin varð sú breyting á að maturinn er ekki lengur í boði um helgar og á helgidögum.

Jón Gunnar Ásgeirsson, sem býr í Eirborgum, segir hádegismatinn mikilvægan þátt í rútínu fólks. Hann segir íbúana æfa vegna breytinganna. „Við fáum engan mat 110 daga á ári. Það eru margir sem geta ekki eldað sér mat eða farið í búð, hvað þá í þessu færi. Dóttir mín hefur stundum komið og eldað fyrir mig en það eru ekki allir svo heppnir að eiga góða að. Félagslegi þátturinn er þó mikilvægastur.“

Jón bendir á að heldur ætti að hækka verðið á máltíðinni sem er nú 660 krónur. „Ég held að flestir væru tilbúnir að borga hundrað krónum meira og halda þjónustunni um helgar inni. Við reyndum að segja stjórnendum það en það er enginn vilji til að hlusta. Þetta er bara stjórnunarofbeldi.“

Ragnheiður Gunnarsdóttir, hjúkrunardeildarstjóri í Eirborgum, segir íbúa geta fengið matarbakka senda til sín um helgar og því muni enginn svelta. „En félagsleg einangrun aldraðra er stórt vandamál og fólki líður vel í notalegum matsalnum með framúrskarandi starfsfólki. Borgin telur sig þurfa að spara en gerir sér kannski ekki grein fyrir hversu dýrmæt þessi þjónusta er.“

Stefán Eiríksson, sviðsstjóri velferðarsviðs, segir kostnað við helgarþjónustu í Eirborgum vera sex milljónir króna á ári. Eirborgir ásamt einni annarri félagsmiðstöð voru með mat um helgar á síðasta ári en nú er aðeins opið á Vitatorgi um helgar, þar sem matarbakkar eru útbúnir.
Ilmur Kristjánsdóttir, formaður velferðarráðs, segir erfitt að svara spurningunni um hvort helgarmáltíðir á félagsmiðstöðvum borgarinnar verði endurskoðaðar í ljósi uppnáms íbúanna. „Við höfum ekki fengið útreiknaðan kostnað við það og eins og flestir vita eru fjármunir af skornum skammti,“ segir hún. Ráðið hefur þó ekki lokað málinu, skoðaður verður möguleikinn á sjálfboðaliðum í matarþjónustunni og eftir söfnun gagna um félagsstarf og matarþjónustu verður málið tekið upp að nýju.

Hits: 0

Hjartastopp ekki alltaf fyrirvaralaus

Hjartastopp ekki alltaf fyrirvaralaus

shutterstock_96242975 (2)Hjartastopp eru ekki alltaf fyrirvaralaus og skyndileg eins og margir halda og útlit er fyrir að meira en helmingur sem fá hjartastopp hafi fengið viðvörunarmerki allt að mánuði áður.

Í rannsókn sem framkvæmd var á körlum á miðjum aldri í Portland Oregon, kom í ljós að meira en helmingur hafði hugsanlega fengið viðvörunarmerki allt að mánuði áður en hjörtu þeirra hættu skyndilega að slá.

Hjartastopp á sér stað þegar hjartað hættir að slá vegna bilunar í rafkerfi þess. Fólk getur stundum lifað af hjartastopp ef þeir fá fyrstu hjálp (hjartahnoð) strax og hjartastuðtæki er notað fljótt eftir áfall til að koma hjartanu í eðlilegan takt.

Um 360.000 hjartastopp utan sjúkrahúsa eru skráð á hverju ári í Bandaríkjunum, samkvæmt tölum frá Amerísku hjartasamtökunum. Aðeins 9,5 prósent af fólki sem fær hjartastopp utan sjúkrahúsa lifa hjartastoppið af.

Hér á Íslandi er talið að milli 100 og 200 hjartastopp verði árlega utan sjúkrahúss og ef þessar tölur eru yfirfærðar á okkur veruleika er líklegt að einhverjir tugir manna og kvenna láti hér lífið á hverju ári af þessum völdum.

„Þegar sjúkraflutningamenn koma á staðinn er það oft of seint“, sagði Eloí Marijon, MD, aðalhöfundur rannsóknarinnar við Cedars – Sinai Heart Institute í Los Angeles.

Rannsóknin er hluti af 11 ára rannsókn í Oregon á óvæntum dauðsföllum, þar sem rannsakaðir voru 1 milljón karla í miðhluta Portland. Vísindamennirnir söfnuðu upplýsingum um einkenni og heilsufarssögu karla á aldrinum 35-65 ára sem höfðu fengið hjartastopp utan sjúkrahúss á árunum 2002-2012.

Meðal 567 karla sem höfðu fengið hjartastopp utan sjúkrahúss höfðu 53 prósent fengið einkenni fyrir hjartastoppið. Af þeim sem höfðu fengið einkenni höfðu 56 prósent fengið brjóstverk, 13 prósent höfðu fengið mæði og 4 prósent hafði fengið svima, yfirlið eða hjartsláttarónot.

Næstum 80 prósent einkennanna komu milli fjögurra vikna og einnar klukkustundar áður en hjartastoppið átti sér stað.

Flestir karlanna höfðu kransæðasjúkdóm en aðeins um helmingur þeirra hafði verið greindur með sjúkdóminn áður en þeir fengu hjartastoppið.

Vísindamenn vinna nú að því að framkvæma sambærilega rannsókn á konum.

„Lærdómurinn sem má draga af þessu er að ef þú hefur þessar tegundir af einkennum skaltu ekki hunsa þau“, sagði Sumeet Chugh, sérfræðingur og framkvæmdastjóri fyrir erfðafræðihluta hjartadeildar á Cedars-Sinai hjartastofnunninni. „Farið á bráðamóttöku strax og ekki láta hjá líða“

Þýtt of stílfært af vef Amerísku hjartsamtakanna.

Hits: 0

Elstu borgararnir skildir eftir fyrir utan heiminn.

FRIÐRIKA BENÓNÝSDÓTTIR hjá Fréttatímanum skrifar:

Sífellt fleiri stofnanir og fyrirtæki hafa hætt að senda frá sér upplýsingar á prenti, þær verður allar að sækja á netið. Þessi þróun bitnar á eldri borgurum sem margir hverjir upplifa sig afskrifaða af samfélaginu. Brýnt að skoða leiðir til að koma til móts við þarfir þess hóps, segir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.

Stór hluti af elsta hópnum í Félagi eldri borgara í Reykjavík stendur alveg fyrir utan netvæðinguna,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður félagsins. „Það er fólk sem vill ennþá prentað mál og á rétt á því að fá þær upplýsingar sem það þarf eins og aðrir. Við höfum af þessu áhyggjur og það er ljóst að við þessu hefði þurft að bregðast miklu fyrr.“
Sífellt fleiri stofnanir og fyrirtæki eru hætt eða um það bil að hætta að senda frá sér prentað efni, hætt verður að prenta símaskrá, leiðabók Strætó verður eingöngu á netinu á nýju ári og verið er að ljúka netvæðingu skattskila, svo dæmi séu tekin. Þórunn segir Félag eldri borgara hafa reynt að bregðast við þessari þróun með námskeiðahaldi í notkun tölva og snjalltölva og muni halda því áfram en það muni aldrei koma öllum þeim sem á þurfa að halda til góða. „Við héldum í fyrra námskeið, meðal annars á iPad, sem hundrað manns sóttu yfir veturinn og munum halda því áfram auk þess sem við hvetjum fólk til að sækja námskeið fyrir eldri borgara hjá tölvufyrirtækjum. En réttur fólks til að hafa aðgengi að hlutunum er brýnt mál og það þarf að fara að skoða gaumgæfilega hvernig hægt er að koma til móts við þarfir þessa hóps.“
Horft hefur verið til Danmerkur um fyrirmyndir að því hvernig hægt er að tryggja réttindi elsta hópsins til aðgengis að upplýsingum og Þórunn segir ljóst að þessi mál hefði átt að skoða miklu fyrr. Í Danmörku séu til dæmis tölvuver í öllum félagsmiðstöðvum eldri borgara og mikið lagt upp úr því að fólk tileinki sér tæknina. Hins vegar sé töluvert stór hópur sem ekki treysti sér til þess og skoða þurfi úrræði fyrir hann. „Auðvitað náum við aldrei öllum,“ segir hún. „Það er alveg ljóst. Og enn er það þannig að í flestum tilfellum er hægt að fá útprent á pappír hjá stofnunum, en um það þarf að biðja sérstaklega og það ruglar fólk mjög í ríminu að eiga að sækja launaseðla, til dæmis, inn á netið og um leið og fólk kinokar sér við því þá minnkar eftirlitið með því hvort allar greiðslur séu réttar.“
Í Félagi eldri borgara er fólk frá sextíu ára aldri og Þórunn segir netvæðinguna ekki vera vandamál fyrir yngri hóp félagsmanna. Sé horft til eldri hópsins hins vegar fari málin að versna. „Elsti hópurinn, fólk um og yfir áttrætt, er að mínu viti skilinn eftir fyrir utan heiminn með þessari netvæðingu sem eykst ár frá ári. Það er bara sanngirnismál að svona mikil breyting taki einhvern tíma og fólk nái að aðlagast. Þessi þróun eykur á einangrun eldra fólks og ég hef upplifað að mörgum finnst að þjóðfélagið sé búið að afskrifa þá. Það má ekki gerast.“

 

 

 

Hits: 0