Eignaupptaka” hjá eldri borgurum á hjúkrunarheimilum!

Eignaupptaka” hjá eldri borgurum á hjúkrunarheimilum!

 

Þegar eldri  borgari fer á hjúkrunarheimili gerir Tryggingastofnun ríkisins lífeyri hans “upptækan” til greiðslu kostnaðar við dvölina á hjúkrunarheimilinu.Þetta er líkast eignaupptöku.Þeir,sem hafa meira en rúmar 74 þúsund í tekjur, mega sæta því,að það sem umfram er sé af þeim tekið fyrir dvalarkostnaði þar til náð er markinu tæpar 355 þúsund krónur.Þar stöðvast “eignaupptakan”.Síðan er eldri borgurunum skammtaðir vasapeningar,53 þúsund krónur að hámarki  en þessi greiðsla er tekjutengd.

Eldri borgararnir,sem fara á hjúkrunarheimili, eru ekki spurðir að því hvort þeir samþykki að lífeyrir þeirra sé tekinn af þeim í framangreindum tilgangi. Nei,þeim er einfaldlega tilkynnt þetta.Á hinum Norðurlöndunum er annar háttur hafður á. Þar fá eldri borgararnir lífeyrinn í sínar hendur en síðan greiða þeir sjálfir eða aðstandendur kostnaðinn við dvölina á hjúkrunarheimilinu.

Það er mat lögfræðinga,að það sé mannréttindabrot að rífa lífeyrinn af eldri borgurum á þennan hátt.

Við ættum að hafa sama hátt á þessu og á hinum Norðurlöndunum.Við þurfum að breyta þessu strax það er niðurlægjandi fyrir eldri borgara að þurfa að sæta því fyrirkomulagi,sem nú er viðhaft.

Björgvin Guðmundsson

Hits: 0

Biðlistar hjá borginni lengjast enn.

Biðlistar hjá borginni lengjast enn.

Reykjavíkurborg í fjárhagsvanda sínum með A-hluta borgarsjóðs virðist eiga í verulegum vandræðum við að veita lögbundna stuðningsþjónustu til þeirra sem sérstaklega þurfa á henni að halda. Um mjög mikilvæga þjónustu er að ræða en markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir félagslega einangrun og bæta samskiptahæfni og hefur þjónustan mikið forvarnargildi.
Í lok síðastliðins sumars voru 498 á biðlista eftir stuðningsþjónustu í Reykjavík og var ástæðan skortur á fjármagni og einnig reyndist erfitt að ráða í stöðurnar. Í lok síðasta árs voru 603 á þessum sama biðlista eftir stuðningsþjónustu Hér er um að ræða þjónustuþætti eins og ráðgjöf, tilsjón,  stuðningsfjölskyldur og liðveislu svo fátt eitt sé nefnt.
Í minnisblaði velferðarsviðs frá því í sumar segir: „Það er samdóma álit þeirra sem starfa við stuðningsþjónustu að þeir sem ekki fá þjónustu í samræmi við þarfir geti frekar þróað með sér auknar þjónustuþarfir eða vandamál síðar.“ Að sögn heimildarmanns Veggsins er ljóst að erfið fjárhagsstaða borgarinnar er farin að hafa umtalsverð áhrif á þjónustu borgarinnar til þeirra sem minna mega sín. 

Hits: 0

Gott ef aldraðir stofnuðu stjórnmálaflokk

Gott ef aldraðir stofnuðu stjórnmálaflokk

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir

formaður Landssambands eldri borgara

Fólk sem er komið yfir 55 ára aldur er ekki fyrirferðarmikið í stjórnum Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og Fjarðabyggðar eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar. Af 35 kjörnum fulltrúum eru einungis 3 innan þessara sveitarstjórna sem eru orðnir 55 ára eða eldri, eða 8.5%. Fólk á þessum aldri er um 24% af heildarfjölda landsmanna. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir formaður Landssambands eldri borgara segir að það væri gott ef aldraðir gætu stofnað stjórnmálaflokk til að berjast fyrir sínum hagsmunum. Hún hafi hins vegar enga trú á að af því verði og muni ekki beita sér fyrir því. „Margir sem eru farnir að eldast eru fastir í þeim stjórnmálaflokkum sem þeir hafi fylgt allt lífið“, segir hún. Stofnun stjórnmálasamtaka eldri borgara hafi verið reynd fyrir nokkrum árum og menn hafi verið komnir af stað með hana. Þá hafi annar hópur  aldraðra tekið sig til og viljað stofnan annan flokk. Hvoru tveggja hafi runnið út í sandinn

Grétar Þór Eyþórsson stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri segir að umræða um að stofna flokk eldra fólks hafi nokkrum sinnum komið upp. Ekki hafi virst grundvöllur fyrir slíku og ekki sé að sjá að svo sé frekar nú. „Það virðist sem eitthvað róttækt þyrfti að gerast sem snertir hagsmunamál eldra fólks, svo sem eins og mjög miklar og alvarlegar bótaskerðingar eða slíkt, til að af því verði“, segir hann.

„Það er langbest að stjórnvöld á hverjum tíma séu spegilmynd af samfélaginu“, segir Jóna Valgerður. „Það þarf að vera jafnræði bæði hvað varðar kyn og aldur“. Hún segist vona að með öldungaráðum í sveitarfélögunum verði hægt að hafa áhrif á málefni aldraðra í sveitarstjórnum. Hún segir að í litlum sveitarfélögum á landsbyggðinni sé beinlínis erfitt að fá menn til að gefa kost á sér í sveitarstjórnir. Þar þurfi menn að leggja á sig mikla vinnu en fái lágar greiðslur fyrir.

Hits: 0

Minni þátttaka eldra fólks á vinnumarkaði

Minni þátttaka eldra fólks á vinnumarkaði

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir

Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherrra ætlar að leggja fram frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði á vorþingi.  Verði frumvarpið samþykkt mega fyrirtæki og stofnanir ekki mismuna fólki  á grundvelli aldurs, kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífs­skoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta.

67 prósent eldra fólks á vinnumarkaði

Skýrsla nefndar, sem ráðherrann skipaði,  um mótun tillögu að vinnumarkaðsstefnu og skipulagi vinnumarkaðsmála á Íslandi  kom út í júní. Í skýrslunni er að finna tölur um atvinnuþátttöku fólks á aldrinum 55 til 74 ára. Þar kemur fram að atvinnuþátttaka þessa hóps var um 67 prósent á síðasta ári, samanborið við um 80 prósent í öðrum aldurshópum. Í skýrslunni segir: „Ljóst er að aldurssamsetning þeirra sem búa hér á landi er að breytast og hlutfall þeirra sem eldri eru eykst smám saman. Þá gefur bætt heilsufar, auknar ævilíkur og vilji til virkrar þátttöku í atvinnulífinu möguleika á aukinni atvinnuþátttöku eldra fólks. Í því sambandi þarf að tryggja gott starfsumhverfi til lengri tíma litið, bæði í því skyni að stuðla að betri líðan og heilsu starfsmanna sem og að auka vilja og möguleika þeirra sem eldri eru til að viðhalda og efla vinnufærni sína. Er þar undirstrikað mikilvægi þess að innlendur vinnumarkaður geti sem lengst notið þekkingar og færni þeirra. Er í því sambandi meðal annars átt við möguleika einstaklinga á nýjum starfsvettvangi á miðri eða seinni stigum starfsævinnar. Aðstæður einstaklinga eru misjafnar og því mikilvægt að sveigjanleg starfslok séu raunverulegur valkostur þegar líður að lokum starfsævinnar.“

Frumvarpið lengi í smíðum

Frumvarp um jafna meðferð á vinnumarkaði hefur verið nokkuð lengi i smíðum í félagsmálaráðuneytinu.  Það átti að leggja frumvarpið fram á síðasta þingi en ekki tókst að ljúka vinnu við það þá. Eygló sagði  í fyrravor  að hún stefndi að því að leggja frumvarpið fram á haustþingi en samkvæmt þingmálamálaskrá ríkisstjórnarinnar verður það ekki lagt fram fyrr en á vorþinginu. Ráðherrann hefur sagt að hann telji að það séu vísbendingar um að fólki hér á land sé mismunað á vinnumarkaði á grundvelli aldurs. „Það er ástæðan fyrir því að ég hef lagt áherslu á að það verði innleitt hér í lög bann við mismunun á meðal annars á grundvelli aldurs,“ sagði Eygló á ráðstefnu sem haldin var um sveigjanleg starfslok í nóvember í fyrra.

Hits: 0

Eldra fólk dýrmætt á vinnumarkaði

Eldra fólk dýrmætt á vinnumakaði

Sigrún Stefánsdóttir tók fyrir ári við starfi forseta hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri en hún er nú 67 ára. Áður hafði hún sagt upp starfi sínu sem dagskrárstjóri sjónvarps og útvarps í Ríkisútvarpinu. Sigrún á að baki langan starfsferil í fjölmiðlum, sem fréttamaður og dagskrárstjóri. Þegar hún stóð á fimmtugu réði hún sig rektor Norræna blaðamannaháskólans í Árósum og síðan sem deildarstjóra hjá Norrænu ráðherranefndinni í Kaupmannahöfn. Þegar hún var orðin sextug réðst hún sem dagskrárstjóri hjá RÚV. Það kemur ekki heim og saman við reynslu margra kvenna sem eru komnar yfir miðjan aldur, um að það sé auðvelt fyrir eldri konur að fá starf aftur, ef þær missa vinnuna á annað borð eða vilja skipta um starf.

Uppgjöf og þú verður fórnarlamb

„Ég held að margir upplifi það þannig, að þeir muni ekki fá vinnu aftur ef þeir eru komnir á ákveðin aldur, en ég held að margir gengisfelli sjálfa sig líka.  Ég varð vör við þetta þar sem ég hef unnið, bæði hér og í Kaupmannahöfn.  Ég man eftir finnskri konu, sem var orðin rúmlega fimmtug og sló því föstu að hún myndi aldrei fá vinnu framar.  Um leið og þú gefst upp ertu orðin fórnarlamb“, segir Sigrún.

Eldra fólk dýrmætt á vinnumarkaði

Það er mikilvægt fyrir fólk að trúa að það sé eftirsóttur vinnukraftur“, segir hún og bendir á að margir haldi því fram að fólk, sem er komið á efri ár, sé besti vinnukrafturinn ef heilsan er góð. Þá eru börnin farin að heiman og fjárhagurinn orðinn betri.  „Það er enginn dýrmætari á vinnumarkaðinum en þeir sem eru orðnir fimmtugir og eldri“, segir hún.  Sigrún talar um gildi þess að fólk í háskólaumhverfinu  fái að stunda rannsóknir þegar kennslustarfi ljúki. Það sé ekki skynsamlegt að henda fólki út 67 ára.

Sumir þrá að hætta að vinna

Sigrún segir að sumir þrái það að hætta að vinna og finnist þriðja æviskeiðið dásamlegt. Það er gott og gilt en það á ekki að setja þeim stólinn fyrir dyrnar sem vilji vinna lengur.  Heilsa fólks sé önnur en var fyrir nokkrum átatugum.  „Horfum á okkur og ömmur okkar“, segir hún.  „Við búum við svo miklu betra atlæti og gætum verið 20 árum yngri en ömmur okkar þegar þær voru á sama aldri. Við erum líka betur á okkur komnar en mæður okkar voru þegar þær voru á okkar aldri. Þegar mamma varð sextug snerust hlutverkin við og við fórum að „vernda“ hana, til dæmis ef farið var til útlanda. Ég fer enn til útlanda á eigin vegum og held utanum allt mitt og stundum vel það. Ég er ekki komin í pössun“, segir hún og hlær.

Þarna liggja tækifæri fyrir eldra fólk

En það er misjafnt hvernig menn vilja hafa hlutina þegar þeir eldast. „Ef ég væri ekki að vinna, myndi ég búa mér til einhvers konar vinnu“, segir Sigrún.  Hún segist hafa hlustað á viðtal við frumkvöðla og segir að þarna liggi svo mikil tækifæri fyrir eldra fólk.  Það hafi reynslu og menntun og þarna liggi kannski tækifærin fyrir þá sem vinumarkaðurinn vill ekki. Sigrún segist hafa rætt við konu sem finnist dásamlegt að vera hætt að vinna og geta gert það sem hana langar til. Sjálf hafi hún prófað það í eitt ár að vera ekki í fastri vinnu og ekki þótt það dásamlegt. „Ég er svo mikil félagsvera, hef gaman af fólki og nenni ekki að vera pensionisti“ segir hún.

Fær ekkert nema maður sæki um

Ég geng út úr föstu starfi 65 ára“ segir Sigrún „ og gaf mér það að ég væri ekki hætt á  vinnumarkaðinum“.  Hún segist hafa farið að sækja um störf og hafi verið númer 2-3 á lokasprettinum í umsóknarferli um annað starf, þegar hún fékk starfið sem hún er núna í.„Maður fær ekkert ef maður sækir ekki um“, segir hún.

Annars missir maður kjarkinn

Sigrún segir það vafasamt að vera á sama  vinnustað í 40 ár.  Unga fólkið geri það ekki, það skipti reglulega um störf.  Sjálf segist Sigrún hafa skipt um störf á átta ára fresti.  „Annars missir maður kjarkinn“, segir hún.  Það er alltaf átak að ganga inná nýjan vinnustað“.  Hún segir líka að fjölbreytt reynsla sé dýrmæt.  „Ég er að upplifa það hér að ég kann ýmislegt sem aðrir kunna ekki, ég hef annan bakgrunn, önnur sambönd,  annars konar reynslu og hef ekki verið í háskólaumhverfinu allt mitt líf. Sigrún segir einnig að það sé mikilvægt að fylgjast vel með. Það sé líka spurning hvernig menn klæði sig og að þeir séu almennt í takt við tímann.

Góð heilsa er undirstaðan

En góð heilsa er undirstaða alls annars, segir hún.  Maður ráði ýmsu sjálfur í þeim efnum, að minnsta kosti því hvernig maður fer með sig. „Ég tel að grunnurinn að því að ég er við góða heilsu sé að ég hreyfi mig mikið.  Fólk er að vorkenna mér vegna þess að ég geng í vinnuna með bakpokann minn, 45 mínútna gang til og frá vinnu. Og þetta er ekki bara tími sem ég geng í vinnuna, ég get hugsað á leiðinni, skipulagt daginn og undirbúið fyrirlestra.  Ég nýti þennan tíma vel og þarf ekki í Worldclass.

Vill setja á laggirnar vísindaskóla

Ég finn aldrei fyrir því að ég sé með þeim elstu á vinnustaðnum. Þetta er kannski þessi dásamlega sjálfsblekking en ég verð heldur ekki vör við að aðrir umgangist mig eins og ég sé elst. Ég er svo forvitin, sem ég held að sé gott.  Það var ekki tilviljun að ég valdi mér blaðamennsku að lífsstarfi.  Mér finnst nauðsynlegt að fylgjast vel með og vera skapandi. Ég fékk nýlega hugmynd að vísindaskóla fyrir unga Akureyringa og er nú að þróa þá hugmynd áfram.  Það er bara svo skemmtilegt og ævintýrin eru á hverju horni !!

Hérna fyrir neðan eru myndir frá starfsferli Sigrúnar í sjónvarpinu og gönguferðum á Ströndum og á Grænlandi.  Neðst t.v. er mynd af henni með sambýlismanninum Yngvari Björshol  og með sonunum tveimur, Þorleifi Stefáni og Héðni Björnssonum.

 

 

Hits: 0

Eftirlaunin hækkuðu um 26 prósent

Eftirlaunin hækkuðu um 26 prósent

„Öryrkjar og eldri borgarar kölluðu á bætt kjör fyrir áramótin þegar við vorum að ljúka vinnslu fjárlagafrumvarpsins og nú birtast okkur tvær fréttir sem geta ekki talist til þess fallnar að gera þennan hóp sérstaklega sáttan,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vg á Alþingi, undir liðnum störf þingsins. Annars vegar gerði Bjarkey að umtalsefni frétt þess efnis að Glitnir HoldCo skipti á milli þriggja manna 170 milljónum á ársgrundvelli í laun.

„Þetta er hreint ótrúlegt og það er ekki að ósekju að fólk velti fyrir sér hvort við séum á sömu leið og fyrir hrun. Síðan kemur frétt um að fyrrverandi dómarar fái 26% hækkun á eftirlaun sín eða eftirlifandi makar þeirra. Þetta gera 44 milljónir á ársgrundvelli fyrir 29 manns,“ sagði Bjarkey. Hún sagði að rökstuðningurinn fyrir hækkun launa dómara nú síðast hafa meðal annars verið aukið vinnuálag. Bjarkey gerði hins vegar athugasemdir við að dómarar á eftirlaunum fái sömu hækkun og starfandi dómarar svo og eftirlifandi makar.  Bjarkey spurði því: „En af hverju á hækkunin að fara til þessa sérstaka hóps eftirlaunaþega meðan allir aðrir sem fá eftirlaun sitja eftir, sem og öryrkjar? Ríkið virðist alltaf eiga fjármuni fyrir sérstaka hópa sem hafa það betra en þeir sem minnst hafa.“

Hits: 0