Landlæknir segir peninga sem hið opinbera greiðir í einkarekstur heilbrigðiskerfisins hverfa í hít

Föstudagur 15.05.2015 – 07:50 – Ummæli (11)

Landlæknir segir peninga sem hið opinbera greiðir í einkarekstur heilbrigðiskerfisins hverfa í hít

birgirlandlaeknirLandlæknir segir mestan hluta einkareksturs í heilbrigðiskerfinu er greiddur af hinu opinbera og þeir peningar fara að segja má í einhverja hít sem ekki er vitað hverju skilar. Ekki sé ástæða til að auka einkarekstur á Landspítala frekar. Landlæknir segir koma á óvart að sami vandi blasi við heilbrigðiskerfinu nú og fyrir tveimur áratugum þegar hann starfaði síðast hér á landi.

Notuðum ekki góðærið

Rætt er við Birgi Jakobsson, nýjan landlækni, í Fréttablaðinu í dag. Birgir segir að mikill vandi blasi við heilbrigðiskerfinu, sem nú um stundir er plagað af verkfallsátökum. Mikill niðurskurður hafi átt sér stað eftir hrun en það sem komi honum á óvart sé að sami vandi blasi við heilbrigðiskerfinu nú og fyrir tveimur áratugum.

Við notuðum ekki góðærið til að bæta lestina í íslenskri heilbrigðisþjónustu og gera hana eins góða og mögulegt er. Það er ekki skrítið að þar sem voru brestir fyrir kreppu eru enn áþreifanlegri brestir eftir kreppu. […]En þar sem við höfum vanrækt að bæta þessa þjónustu í áratugi, þá verður allt sem við þurfum að gera svo miklu dýrara. Þær fjárfestingar sem við höfum frestað eða látið hjá líða koma í hausinn á okkur núna.

Óskýr stefna

Birgir segir þrennt sem vinna þurfi að hvað varðar þjónustuþátt heilbrigðiskerfisins. Að bæta heilsugæsluna á höguðborgarsvæðinu, að bæta og gera skilvirkari sérfræðiþjónustu úti á landi og að skapa forsendur fyrir rekstri háskólasjúkrahúss.

Birgir segir óskýra stefnu uppi þegar kemur að rekstrarformi heilbrigðisþjónustu en mikill hluti hennar er einkarekinn í dag. Hann segist ekki hafa trú á einkarekstri á Landspítala né að spítalanum verði skipt upp í einingar. Þá sé áhyggjuefni að þeir peningar sem hið opinbera greiðir í einkareksturinn, sem er mestur hluti kostnaðarins, í einhverja hít sem ekki sé vitað hverju skili.

Hefur áhyggjur af frjálshyggjunni

Landlæknir hefur áhyggjur af þeirri léttúð sem hann segir að einkenni marga Íslendinga, þeirri hugmyndafræðir frjálshyggju sem tröllríði samfélaginu, á kostnað meðal annars lýðheilsu. Þar bendir hann meðal annars á áfengisfrumvarpið og afnám tolla á sykur sem stangist á við öll þekkt markmið um lýðheilsu.

Ég verð sorgmæddur yfir þessu. Það er gengið yfir þá sem minna mega sín og lenda augljóslega í erfiðleikum út af þessu.

Hits: 2