Ætla að slá í gegn í Slóveníu

DEILA

Ætla að slá í gegn í Slóveníu

Í tæp þrjátíu ár hefur hópur karla hist í hverri viku til að stunda leikfimi saman. Nú æfa þeir dansatriði af kappi undir listamannsnafninu The Sóley’s boys og stefna ótrauðir á Hátíð gullna aldursins, The Golden age festival, sem verður haldin í Slóveníu þetta árið.

Inn með magann og halda stöðunni,“ kallar Sóley Jóhannsdóttir danskennari yfir hóp 12 karlmanna á besta aldri sem liggja löðursveittir í armbeygjustöðu á gólfi Kramhússins. Undir dynur Eurovision-lagið Everybody, framlag Eistlands árið 2001, og stemningin er rafmögnuð.

Við næsta takt stökkva karlarnir á fætur og taka létta sveiflu við sjálfa sig, rétta hendur upp til himins og klappa í takt. Klukkan er rétt rúmlega sjö á þriðjudagsmorgni en hópurinn heldur áfram að hoppa og snúast hring eftir hring eins og enginn sé morgundagurinn. Þetta eru Strákarnir hennar Sóleyjar, eða The Sóley’s boys, eins og þeir munu heita þegar þeir verða kallaðir upp á svið á The Golden age festival í Portoroz í Slóveníu í næsta mánuði. Það er ekkert gefið eftir enda til mikils að vinna. Strákarnir stefna á að skáka ókrýndum sigurvegurum síðustu hátíðar gullna aldursins, þýsku stálkroppunum sem allir eru komnir yfir nírætt en komu sáu og sigruðu með tvísláaratriði sínu.

„Þýski aginn fær ekki að vinna okkur,“ grínast Guðni Kolbeinsson og strákarnir hennar Sóleyjar skella allir upp úr. Það er óneitanlega góð stemning í hópnum enda hefur kjarni hans æft leikfimi með Sóleyju í tuttugu og sex ár. Sá yngsti er 59 ára en sá elsti er að nálgast áttrætt og allir eru þeir í toppformi.

Click here

Vinnubúðir og áfengisbann

„Upphaflega áttu þetta að vera leikfimitímar í hádeginu en svo breyttist þetta einhverra hluta vegna í danstíma,“ segir Guðni og aftur skella allir upp úr.
„Þegar ég bar þá hugmynd undir strákana fyrir fjórum árum síðan að fara út á þetta „festival“ og dansa uppi á sviði þá var ekki tekið mjög vel í hugmyndina, það var bara „general“ hlátur í sturtuklefanum,“ segir Rúnar Gunnarsson og aftur hljómar hláturinn um salinn.
Hópurinn ákvað þó að fara út fyrir þægindarammann og taka þátt í The golden age festival. Hátíðin er haldin annað hvert ár á einhverjum fallegum og sólríkum stað í Evrópu og þar mætist fólk sem er komið yfir fimmtugt til að skemmta sér saman, dansa og stunda allskyns hreyfingu. „Þetta áttu nú upphaflega bara að vera tvær sýningar sem eru 3 mínútur hvor og svo restin bara frí og afslöppun. En svo voru allt í einu eilífar æfingar bæði kvölds og morgna og áfengisbann í þokkabót. Þetta voru bara vinnubúðir,“ segir Guðni.
„Enda slógum við algjörlega í gegn!,“ er þá kallað innan úr hópnum.

Auðvelt að sleppa sér á þessum aldri

„Í fyrstu ætluðu strákarnir ekkert að vera með í sýningu á „festivali“ þar sem 95% þátttakenda eru konur. Þannig að ég tók konurnar þeirra með í atriðið og það sló algjörlega í gegn, sérstaklega vegna þess hvað það skein mikil gleði af hópnum. Ég hef aldrei hlegið eða haft jafn mikið gaman að nokkru verkefni og við vöktum mikla athygli,“ segir Sóley. Eiginkonur strákana munu einnig vera með í „comebackinu“ í Slóveníu því í lok dansatriðisins munu þær svífa inn á svið og taka nokkur dansspor með strákunum. „Það góða við að komast á þennan aldur er hversu auðvelt er að sleppa sér,“ segir Sóley.
„Við erum að þessu til að skemmta okkur,“ skýtur þá eiginmaður Sóleyjar inn, Ólafur Jón Briem, en hann er einn af strákunum.

Hits: 2

Lífskúnstner biður sér konu.

Lífskúnstner biður sér konu

Davíð Guðbjartsson var í lögreglunni í 40 ár.

Davíð Guðbjartsson var í lögreglunni í 40 ár.

Honum Davíð Guðbjartssyni, fyrrverandi lögreglumanni, lífskúnstner og listamanni leiðist aldrei. Hann hefur mörg áhugamál, er á leiðinni í hnapphelduna. Ætlar að biðja sinnar heittelskuðu á Tenerife á næstu dögum.

Reykjavík var með allt öðrum blæ þegar Davíð hóf störf í lögreglunni, í lok sjöunda áratugar síðustu aldar. Í raun minnti Reykjavík meira á lítið sveitaþorp í þá tíð. Skemmtistaðir ekki opnir nema til tvö á laugardögum og eitt á föstudögum og í miðri viku áttu skemmtanaþyrstir að vera komnir heim fyrir miðnætti. Borgin breyttist svo smátt og smátt, opnunartími skemmtistaða lengdist, bjórinn hélt innreið sína og ferðamönnum fjölgaði svo um munaði. „Ég hef upplifað miklar breytingar á störfum lögreglumanna. Ástandið í dag er ekkert líkt því sem var. Það er svo mikið að veruleikafirrtu fólki og fíkniefnaneytendum sem lögreglan þarf að hafa afskipti af. Fólki sem er viti sínu fjær.

Ofbeldið hefur harðnað

Þegar ég var að byrja í lögreglunni heyrði það til undantekninga að fangageymslur fylltust í miðri viku. Það var bara um helgar sem það gerðist,“ segir hann og bætir við að lögreglan hafi staðið nær fólki í þá gömlu góðu daga. „Ég var einn af síðustu göngueftirlitsmönnum lögreglunnar. Þá fór maður á milli skemmtistaða og kráa og ræddi við fólk. Í dag er ofbeldið miklu harðara en það var.“ Davíð vann lengst af á miðbæjarstöð lögreglunnar en hún var lögð niður fyrir nokkrum árum og hann segist sakna hennar. Segist í raun ekki skilja af hverju hún var lögð niður, það hafi verið full þörf á henni ekki síst eftir að ferðamönnum fjölgaði í miðbænum. Þeir hafi leitað mikið á stöðina. „Svo höfðum við eftirlit með þeim sem oft eru kallaðir góðkunningjar lögreglunnar,“ segir hann og brosir. Hann fluttist svo á lögreglustöðina í Breiðholti og þaðan á stöðina á Seltjarnarnesi.

Allt annað líf

Vaktavinna er hlutskipti lögreglumanna og Davíð segir að það hafi verið gríðarleg breyting að komast á fastar dagvaktir en hann komst á slíkar vaktir síðasta áratuginn sem hann var í lögreglunni, „það var allt annað líf.“Davíð söng fyrsta tenór í lögreglukórnum í þrjátíu ár og minnist þess með mikilli gleði. „Það var ofboðslega gaman,“ segir hann. „Við sungum við ýmis opinber tækifæri og fórum á norræn kóramót lögreglumanna og 2006 til St. Pétursbogar. Það var ógleymanleg ferð, borgin er falleg og svo var vel tekið á móti okkur.“ Davíð hætti í lögreglunni árið 2009 og þá má segja að líf hans hafi tekið u-beygju. „Um það

Kennir nú tréútskurð á Korpúlfsstöðum.

Kennir nú tréútskurð á Korpúlfsstöðum.

leyti sem ég var að hætta ákveð ég að læra tréútskurð. Ég vissi að það var verið að kenna hann á vegum Korpúlfa -félags eldri borgara í Grafarvogi, á Korpúlfsstöðum. Þangað fór ég og hann Helgi Bernódusson tók mig í læri. Helgi veiktist og varð að hætta og bað mig um að taka við af sér. Hann sagði við mig: „Davíð þú ert svo góður við fólkið“. Ég sagðist gera þetta með einu skilyrði, að ég mætti leita til reyndari manna ef ég lenti í vandræðum með eitthvað og það samþykkti stjórn Korpúlfa,“ segir hann.

Ein stór fjölskylda

Vinnustofan á Korpúlfsstöðum er falleg og björt. Davíð hafði forystu um að hún var öll tekin í gegn fyrir rúmu ári. Hann smíðaði ný vinnuborð og nú geta á þriðja tug manna lagt stund á tréútskurð þar. Samhliða því að kenna tréútskurð er Davíð í framhaldsnámi í tréútskurði hjá Friðgeiri Guðmundsyni einum þeim færasta í greininni hér á landi. „Ég líki þessu við háskólanám. Hjá honum læri ég nýja tækni og er núna að læra þrívíddar útskurð.“ Davíð kennir tréútskurð þrjá daga í viku á Korúlfsstöðum. Yfirleitt mæta rúmlega tuttugu í hvert skipti. „Þetta er mikið sama fólkið sem kemur en það bætast alltaf einhverjir nýir við. Það er alveg frábært að vera hér. Fólkið er alveg yndislegt og hér hjálpast allir að. Mér finnst stundum að þetta sé mín önnur fjölskylda,“ segir hann.

Fékk nóg af göngubrettum

Davíð er virkur í starfi Korpúlfa. Hann er í tveimur gönguhópum á vegum félagsins. „Ég hef verið í líkamsrækt í áratugi. Þegar maður var í lögreglunni varð maður að vera í góðu líkamlegu formi til að geta tekist á

Hér er verið að gera bruggtæki upptæk.

Hér er verið að gera bruggtæki upptæk.

við erfið verkefni eins og handtaka menn sem voru með mótþróa. Ég byrjaði að æfa í Sænska frystihúsinu en það var þar sem hús Seðlabankans stendur núna. Ég held bókstaflega að ég hafi æft á öllum líkamsræktarstöðvum í borginni. Ég fékk hreinlega nóg af göngu og hlaupabrettum og að lyfta lóðum. Ég segi stundum í gríni og alvöru að loftið inni á þessum stöðum sé misgott. Ég nýt þess í dag að ganga úti í staðinn fyrir að finna bara svitalyktina af næsta manni. Það er svo gott að finna ferskt útilofið leika um sig og vindinn strjúka vanga. Ég er í hraðgönguhóp og svo er það sniglahópurinn, en í honum er fólk sem vill fara hægar yfir.“

Íslendingar ekki nógu og snyrtilegir

„Oft tökum við með okkur ruslapoka og tengur til að tína upp rusl sem verður á vegi okkar. Það er ótrúlega mikið af rusli sem við erum að tína. Íslendingar eru ekki nógu snyrtilegir, því miður,“ segir hann. Þetta eru þó ekki einu göngurnar sem Davíð hefur lagt stund á. Hann var í gönguklúbbnum Ferli þegar hann var í lögreglunni. „Ómar Smári Ármannsson stjórnaði þeim klúbb. Við gengum vítt og breitt um Reykjanesið og um suðvesturhornið. Þetta voru oft langar göngur allt upp í átta tíma. Svo geng ég oft með syni mínum á góðviðrisdögum, vítt og breytt um borgina,“ segir Davíð sem kveðst hvergi nærri hættur í fjallgöngum þó gönguhópar Korpúlfa hafi átt hug hans allan síðustu ár.

Lærir myndlist

Falleg þrívíddarmynd eftir Davíð.

Falleg þrívíddarmynd eftir Davíð

Talið berst að tónlist en Davíð er mikill tónlistarunnandi. Hann spilar bæði á harmónikku og píanó. Var svo frægur að vera einu sinni í hljómsveit, það var hljómsveit Karls Jónatanssonar. „Ég tók nikkuna stundum með þegar ég var að ganga með Ferli og spilaði þá í hellum sem við fundum. Hljómburðurinn í hellum er magnaður. Svo spila ég alltaf á nikkuna þegar listamenn sem eru með vinnustofur hér á eru með einhverjar uppákomur. Þá geng ég á milli herbergja og spila fyrir gesti og gangandi. Þó tónlistin og tréútskurðurinn skipi stóran sess í lífi Davíðs þá leggur hann stund á fleira. Hann er líka nemandi í myndlist og hefur verið í Myndlistarskóla Kópavogs. „Ég málaði mína fyrstu mynd 1973 af Vestamanneyjagosinu. Móðurbróðir minn Jóhannes Frímannsson var myndlistarmaður og ég var mikið hjá honum sem unglingur. Hann kenndi mér margt, meðal annars að blanda liti og gera allskonar kópíur. Það kom mér að góðum notum þegar ég fór í Myndlistarskólann. Ég þurfti ekki að byrja frá grunni heldur fékk strax að takast á við erfiðari verkefni. Svo hef ég líka verið að læra að móta leir. Fór á leirnámskeið í fyrra og þar opnaðist nýr heimur fyrir mér, það er alveg ótrúlega gaman að vinna með leir,“ segir hann.

Ætla að finna rómanstískan stað og biðja hennar

Það má með sanni segja að Davíð hafi fyllt líf sitt af allskyns skemmtilegum áhugamálum eftir hann hætti í lögreglunni. Hann er nú staddur á Tenerife, en það er í

Hér er Davíð við gæslu á Bessastöðum. Á myndinni eru auk hans Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra og eiginkona hans.

Hér er Davíð við gæslu á Bessastöðum. Á myndinni eru auk hans Davíð Oddsson fyrrverandi forsætisráðherra og eiginkona hans.

fyrsta skipti sem hann fer þangað. Þar er hann með unnustu sinni Þuríði Matthíasdóttur. „Við erum búinn að þekkjast í nokkur ár. Ég ætla að finna einhvern fallegan rómantískan stað, skella mér á skeljarnar og biðja hennar formlega. Við erum búinn að velja hringana,“ segir Davíð. Hann segir að það sé gott að vera ástfanginn á þessum aldri en Davíð er fæddur 1948 og Þuríður 1939. „Aldur er afstæður og skiptir ekki máli, það sem skiptir máli er að fólki falli vel saman. Hún er yndisleg manneskja. Við deilum sömu áhugamálum. Við syngjum bæði í kór Átthagafélags Strandamann, dönsum mikið saman og höfum ánægju af því að ferðast. Við erum miklir félagar,“ segir hann. Davíð segir að þau hafi velt því fyrir sér að gifta sig úti en það verði þó líklega ekki fyrr en þau komi heim aftur. „Þó ég hafi verið með annan fótinn heima hjá Þuríði síðustu ár höfum við ekki verið í sambúð. Við ætlum að fara að búa saman þegar við erum gift,“ segir hann að lokum, fullur tilhlökkunar.

Hits: 3

Allsnægtarþjóðfélagið skammtar hungurlús!

Björgvin Guðmundsson skrifar í Fréttablaðið:

Mikil viðbrögð voru við síðustu grein minni um kjör aldraðra. Margir eldri borgarar hringdu til mín og þökkuðu mér fyrir greinina. En jafnframt gerðu þeir mér grein fyrir kjörum sínum. Þau eru mjög slæm, miklu verri en ég hafði gert mér grein fyrir. Þó hef ég um margra ára skeið fylgst með kjörum eldri borgara sem formaður kjaranefndar Félags eldri borgara. Það er stór hópur eldri borgara sem á erfitt með að draga fram lífið. Þessi hópur verður að velta fyrir sér hverri krónu og verður að neita sér um mjög margt. Dæmi eru um það, að sumir þessara eldri borgara eigi ekki fyrir mat. Þetta er hneyksli. Og þetta láta stjórnvöld viðgangast.
Þau hreyfa hvorki legg né lið. Yppta aðeins öxlum. Þarf byltingu? Það er ljóst að það verður að stokka algerlega upp í kjaramálum aldraðra og öryrkja.Það duga engar skottulækningar. Það verður að stórbæta kjör aldraðra og öryrkja, þannig að það verði unnt að lifa með reisn á lífeyri almannatrygginga. En það er langur vegur frá því, að það sé unnt í dag. Við búum í allsnægtaþjóðfélagi. Laun fólks eru á bilinu 600 þúsund til ein milljón á mánuði. Algengt er að fjölskyldur séu með tvo bíla. Farið er í eina til tvær skemmtiferðir til útlanda á ári. Mikil aðsókn er að dýrum tónleikum og leikhúsferðum. Eyðslan er í hámarki eins og fyrir bankahrunið. En á sama tíma og þetta gerist er verið að skammta eldri borgurum og öryrkjum 200 þúsund krónur á mánuði til þess að lifa af, þeim sem treysta á almannatryggingar. Og þeir sem hafa lágan lífeyrissjóð hafa litlu meira; sumir 250 þúsund á mánuði og einstaka
300 þúsund. Getum við boðið okkar eldri borgurum og öryrkjum þessi kjör? Blettur á íslensku samfélagi Kjör aldraðra og öryrkja á Íslandi eru blettur á íslensku samfélagi. Við verðum að þvo þennan blett af. Við verðum að gerbreyta kjörum aldraðra og öryrkja; stórbæta þau. Kjör aldraðra og öryrkja eiga að vera það góð að við getum verið stolt af því hvernig við búum að öldruðum og öryrkjum. Þessi málaflokkur á að vera í forgangi hjá okkur en ekki að mæta afgangi eins og gerist í dag. Kjör aldraðra og öryrkja á Íslandi eru miklu verri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og á Bretlandi. Við verðum að breyta þessu og það þolir enga bið. Það verður að breyta þessu strax

Hits: 2