Að forðast byltu og koma í veg fyrir beinbrot

Að forðast byltu og koma í veg fyrir beinbrot

09.03.2017

 

Líkaminn þarf hreyfingu til að vaxa og dafna, hreyfing sem er fullnægt gegnum vinnu fer víða minnkandi, störf eru sérhæfðari og vélvæddari sem leiðir til meiri kyrrsetu. Hreyfingarleysi dregur úr vöðvastyrk og hætta er á að beinmassi minnki hraðar en ella sem aftur kallar á aukna hættu á beinbrotum ef fólk dettur. Aldraðir hafa ekki síður en yngra fólk not fyrir styrka vöðva og gott jafnvægi. Það er þekkt að aldraðir eiga auðvelt með að lenda í  vítahring minnkaðar hreyfingar vegna hræðslu við að detta. Í Noregi hefur skráning leitt í ljós að þeir sem eru eldri en 65 ára eru í meiri hættu á að verða fyrir slysi á heimili.

Margir þættir stuðla að byltum meðal aldraðra, oftast er um að ræða samverkandi þætti ellihrörnunar, sjúkdóma og lyfja. Hægt er að grípa til einfaldra ráða til að draga úr fallhættu með því að auka vöðvastyrk og liðleika, einnig með því að hagræða og fækka slysagildrum í heimahúsum.

Þungaberandi æfingar sem bæta gönguhraða, vöðvastyrk og jafnvægi eldra fólks geta dregið úr byltum um 25-30%. Gott er að bæta æfingum inn í daglega iðju, t.d. má nota stiga og ganga innanhúss til að ganga rösklega yfir veturinn þegar hálka og snjór er úti. Jafnvel má nota bílakjallara á þeim tímum sem umferð er lítil. Það er ekki verra að hafa göngufélaga til að spjalla við, en rannsóknir hafa sýnt að það viðheldur hæfni til að gera tvennt í einu.

Það er einnig mikilvægt að fyrirbyggja fall með því að fækka slysagildrum í heimahúsum. Algengar slysagildrur eru þrengsli og hindranir í gangvegum, lausar rafmagnssnúrur, teppakantar og mottur sem auðvelt er að hrasa um. Hál eða blaut gólf til dæmis á baðherbergi, þar getur stöm motta í sturtu eða baðkari ásamt handfangi auðveldlega komið í veg fyrir fall. Einnig getur verið kostur að hafa stól í sturtunni eða sæti í baðkarinu. Hægt er að hækka salerni með þar til gerðri salernisupphækkun til að auðveldara sé að standa á fætur. Sjúkratryggingar Íslands sjá um ráðgjöf og afgreiðslu hjálpartækja samkvæmt ákveðnum reglum.

Góð lýsing skiptir líka máli, og gott getur verið að hafa næturljós sem lýsir leiðina á baðherbergið. Mikilvægt er að standa rólega á fætur, en það á sérstaklega við um þá sem eiga á hættu blóðþrýstingsfall eða svima. Meiri hætta er á að detta þegar gengið er á sokkaleistunum en í skóm. Skipuleggið þannig að ekki þurfi að klifra upp á stól til að ná í hluti í hillu eða skáp. Hafa skal handrið við tröppur og allir ættu að nota mannbrodda á skó og stafi í hálku.

Samkvæmt rannsókn í Noregi, deyja fleiri þar af völdum slysa á heimili en í umferðinni. Með einföldum lausnum og hagræðingu má fyrirbyggja byltu og jafnvel brot, sem dregur úr kostnaði heilbrigðiskerfisins en fyrst og fremst kemur það í veg fyrir þjáningu og skert lífsgæði einstaklingsins sem á í hlut. Bætum lífsgæði, stundum hreyfingu og fyrirbyggjum byltur, bætum lífi við árin ekki bara árum við lífið.

Höf: Inga Jónsdóttir, iðjuþjálfi
Greinin birtist á visir.is 8.3.2017

Hits: 2

Eru eldri borgarar gamlir nöldurseggir?

 
SIGURÐUR JÓNSSON SKRIFAR

Þjóðin er að eldast. Heilsufar er betra almennt séð hjá eldri borgurum. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að þetta sé eitt helsta vandamálið í huga sumra stjórnmálamanna. Þessi staðreynd eykur útgjöld ríkisins hvað varðar greiðslur frá Tryggingastofnun og kallar á frekari uppbyggingu hjúkrunarheimila svo eitthvað sé nefnt.

Þetta birtist mörgum eldri borgaranum þannig að þessi stóri hópur sé verulegt vandamál. Sé hreinlega baggi á þjóðfélaginu. Nú er það svo að margir eldri borgarar eru mjög virkir í þjóðfélaginu. Eru á fleygiferð alla daga við að aðstoða, t.d. að skutla barnabörnum í skólann, á íþróttaæfingar o.s.frv. Nú eða aðstoða á margan annan hátt.

Þetta gleymist oft í umræðunni. Það myndi örugglega hiksta þjóðfélagið ef þessi stóri hópur sem eldri borgarar eru tæki sig saman og legði niður þessa vinnu. Ráðamenn þjóðarinnar þurfa aðeins að hugsa þessi mál þegar þeir eru að ákveða kjör eldri borgara. Framlag eldri borgara til þjóðarbúsins til aðstoðar hefur ekki verið reiknað til fjár.

Sem betur fer er nú mikil uppbygging í þjóðfélaginu, sem kallar á vinnuafl. Stjórnmálamenn hafa hvatt til þess að eldri borgarar taki þátt í atvinnulífinu og taki að sér vinnu, t.d. í hlutastarfi. Allt er það gott og blessað. Ener það ekki ansi mikill tvískynningur að hvetja til atvinnuþátttöku, en hafa kerfið þannig að sáralítið sitji eftir í veski eldri borgarans. Frítekjumark er aðeins 25 þúsund á mánuði. Eftir það skerðast greiðslur frá Tryggingastofnun. Það getur ekki verið glóra í því að eldri borgarar séu látnir greiða hátekjuskatt þótt þeir vinni sér inn nokkrar aukakrónur.

Ekki nóg að það standi á blaði
Nýja ríkisstjórnin segist ætla að hækka frítekjumarkið. Það er ekki nóg að það standi á blaði. Það verður að gerast strax. Það hljóta allir að sjá óréttlætið og þá verður að laga hlutina strax.

Margir hafa í gegnum tíðina verið að byggja upp sinn lífeyrissjóð. Þetta var eins og að leggja peningana sína í banka til að nota síðar. Það er því ósanngjarnt að ríkið skuli skerða þessa eign þótt fólk vinni sér inn nokkrar aukakrónur.

Eldri borgarar landsins eru um 40 þúsund og fer fjölgandi. Þetta er stór hópur sem á að standa saman og gera kröfur á sína sveitarstjórn, alþingismenn og ráðherra. Eldri borgarar hafa lagt grunninn að þessu góða þjóðfélagi sem við búum í. Það er ekki réttlátt að stór hópur eldri borgara þurfi að búa við kjör sem eru langt undir meðaltekjum launafólks.

Eldri borgarar. Stöndum saman í baráttunni fyrir sómasamlegum launum til eldri borgara. Stöndum saman til að berjast fyrir að ríkisvaldið hætti að skerða atvinnutekjur eldri borgara.

Hits: 2

5 milljarðar sóttir til ríkisins fyrir aldraða með málsókn!

Málaferli gegn ríkinu eru í uppsiglingu vegna ólögmætrar skerðingar Tryggingastofnunar ( ríkisins)  á lífeyri aldraðra hjá TR vegna greiðslna úr lífeyrissjóðði í janúar og febrúar á þessu ári.Þegar ný lög um almannatryggingar voru samþykkt á alþingi haustið 2016 féll niður heimild til skerðiingar á lífeyri þeirra aldraðra, sem fengu greiðslur úr lífeyrissjóði. Í stað þess að láta alþingi setja inn nýja heimild í lögin fyrir áramótin síðustu var farin sú leið að skerða lífeyri aldraðra án lagaheimildar. Það gerðist í tæpa tvo mánuði.

Í lok febrúar var heimild til skerðingar sett inn í lög um almannatryggingar á ný. Þá nam ólögmæta skerðingin orðið 5 milljörðum króna.Einhverjir stjórnarþingmenn sögðu á alþingi, að menn hefðu vitað,að umrædd skerðing ætti að vera í gildi.Þetta eru furðuleg ummæli.Í fyrsta lagi lýsa þau algerri óvirðingu við lagasetningu alþingis; nánast er sagt,að ekki skipti máli hvort lagatextinn sé réttur eða ekki. Í öðru lagi horfir umræddur þingmaður ( þingmenn) framhjá því, að eldri borgarar eru flestir andvígir umræddri skerðingu lífeyris og telja það himnasendingu, að heimild alþingis til slíkrar skerðingar falli niður.Stór hluti eldri borgara vill að skerðing tryggingalífeyris vegna lífeyrissjóða verði afnumin með öllu og bætur greiddar fyrir skerðingu fyrr ára.

Skorað á LEB að fara í mál við ríkið

Flokkur fólksins sendi Landssambandi eldri borgara bréf,áskorun um , að sambandið færi í mál við ríkið vegna ólögmætu skerðinganna í janúar og febrúar á þessi ári.Tilkynnti flokkurinn, að ef þetta yrði ekki gert innan 10 daga mundi flokkurinn sjálfur fara í mál við ríkið vegna ólögmætu skerðinganna.Málið stendur þá þannig, að annað hvort fer Landssamband eldri borgara  í mál við ríkið eða Flokkur fólksins  gerir það vegna þess máls, sem hér hefur verið gert að umtalsefni.

Ég tel þetta gott framtak hjá Flokki fólkisns. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stefna eigi ríkinu vegna ólögmætu skerðinganna á lífeyri aldraðra í janúar og febrúar á þessu ári.En ekki á að láta þar við sitja.Einnig á að undirbúa mál á hendur ríkinu vegna stöðugra  fyrri skerðinga á lífeyri aldraðra hjá TR vegna lífeyrissjóða.  En það var  lagt til í stjórn Félags eldrri borgara í Reykjavík. Safna þarf gögnum til staðfestingar því, að það hafi verið skilningur þeirra, sem stóðu að stofnun lífeyrissjóðanna og þeirra sem  fylgdust með því, að lífeyrissjóðirnirr hafi átt að vera viðbót við almannatryggingar.Lítið er til af skriflegum staðfestingum á því,að svo hafi átt að vera og því  þarf að rita niður slíkar staðfestingar og það tekur nokkurn tíma. Nauðsynlegt er að fara í mál við ríkið vegna fyrri skerðinga til þess að fá þeim hnekkt og tryggja fullan rétt aldraðra.Stjórnvöld hver, sem þau eru, fást ekki til þess að afnema skerðingar án málsóknar.Það er mitt mat.

 

Björgvin Guðmundsson

Hits: 2